Á nýafstöðnu Fjórðungsþingi Vestfirðinga var vikið að áformum ríkisstjórnarinnar um gjaldtöku í jarðgöngum landsins sem lið í að fjármagna komandi jarðgöng. Fjórðungsþingið fellst ekki á þessi áform nema í boði sé önnur akfær leið en um viðkomandi jarðgöng.
„Fjórðungsþing Vestfirðinga harmar samþykkt Alþingis í Samgönguáætlun 2020-2034 um að til framtíðar litið verði tekin upp gjaldtaka í jarðgöngum. Jarðgöng á Íslandi, að undanteknum Hvalfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum, hafa verið sett í framkvæmd til að leysa af hættulega fjallvegi eða fjallshlíðar með viðvarandi ofanflóðahættu. Þannig hefur verið komið á jafnræði íbúa landsins með því að byggja upp öruggar heilsárssamgöngur milli sveitarfélaga og eða milli byggðarlaga innan sveitarfélaga. Fjórðungsþing Vestfirðinga getur eingöngu fallist á gjaldtöku í jarðgöngum ef tryggt er að önnur heilsársleið sé fær.“