Vesturbyggð: tekjur 10% undir áætlun

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Vesturbyggðar fór á bæjarráðsfundi í gær yfir stöðu rekstrar fyrir tímabilið janúar til júlí. Verulegur samdráttur er í tekjum og eru þær um 79 milljónir undir áætlun fyrir tímabilið. Mestu munar þar um samdrátt í tekjum Jöfnunarsjóðs sem eru 27 milljónum undir áætlun og útsvars sem er 24 milljónum undir áætlun. Jafnframt er nokkur lækkkun á þjónustutekjum.

Miðað við  fjárhagsáætlun fyrir árið er gert ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins væru 775 milljónir króna á fyrstu 7 mánuðum ársins.  Rauntölur eru því um 10% undir áætlun. Samdrátturinn skiptist þrjá nokkuð jafna liði. Fyrst er lækkun á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, svo er lækkun á útsvarstekjum og loks lægri þjónustutekjur, sem að mestu má líklega skýra með covid19.

Bæjarráð ítrekar fyrri bókun og bendir er á mikilvægi framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau séu ekki skert. Sveitarfélagið reiðir sig á framlög Jöfnunarsjóðs til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum.

DEILA