Vestfirðir: útflutningsverðmæti eldislax meira en þorsks

Það stefnir í það að útflutningsverðmæti eldislax frá Vestfjörðum á þessu ári verði meiri en útflutningsverðmæti þorskafurða frá Vestfjörðum. Þetta kom fram í erindi Einars K. Guðfinnssonar á rafrænni ráðstefnu sem Landvernd stóð fyrir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fimmtudagskvöldið.

Tölur síðasta árs liggja fyrir  var útflutingsverðmæti þorsksins frá Vestfjörðum 12,9 milljarðar króna en útflutningsverðmæti eldislaxins var 10,1 milljarður króna. Á þessu ári er fyrirséð að framleiðslan í eldislaxinum mun aukast verulega og þá telur Einar K. næsta víst að útflutningsverðmæti eldislaxins muni verða meira en þorsksins.

Geta má þess að samkvæmt upplýsingum frá Arnarlax og Arctic Fish var framleiðsla fyrirtækjanna af eldislaxi um 13 þúsund tonn í fyrra og stefnir í að verða 20 þúsund tonn á þessu ári.

Útreikningarnir eru byggðir á því hvað þorskinn varðar að útflutningsverðmæti þorsksins er reiknað út frá útgefnum kvóta til Vestfjarða og því  magni er breytt í útflutningsverðmæti miðað við meðalútflutningsverð á síðasta ári. Tölurnar varðandi laxinn eru auðfengnar frá eldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum.

Einar K. sagði í samtali við Bæjarins besta :

„Ég held að segja megi að mjög líklegt sé að á þessu ári verði útflutningsverðmæti laxins á Vestfjörðum meira en þorsksins. Þetta er þó með fyrirvara. Laxaverðið hefur lækkað talsvert vegna COVID áhrifa. Reynslan hefur þó almennt sýnt að laxaverðið hækki þegar haustar, en er lægra yfir sumarið.“

 

DEILA