Veiðigjöld lækka um 61% á tveimur árum

Álögð veiðigjöld til ríkisins fyrstu sjö mánuði ársins fyrir veiðar á kvótabundnum fisktegundum nema 2.559 milljónum króna samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu. Verði veiðigjöldin þá fimm mánuði ársins sem eftir eru sambærileg og mánuðina á undan stefnir í að ríkið fá 4,4 milljarða króna tekjur á árinu.

Gangi það eftir verða veiðigjöldin þriðjungi lægri en á síðasta ári, 2019, þegar þau voru 6,6 milljarðar króna. Lækkunin yrði um 61% sé miðað við tekjur af veiðigjaldi ársins 2018. Þá voru veiðigjöldin 11,3 milljarðar króna.

Töluverð viðskipti eru með aflaheimildir og á þessu ári hafa 18.476 tonn af þorski verið leigð milli útgerðarfyrirtækja fyrir samtals 4.672 milljónir króna. Meðalverðið fyrir hvert kg er 248,13 krónur samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.

Þá hafa tæplega 5000 tonn af ýsu verið leigð á árinu fyrir samtals 1,2 milljarða króna. Meðalverðið er 218,32 kr/kg.

Veiðigjaldið á þessu ári fyrir þorsk er 10,62 kr/kg og 14,86 kr fyrir ýsuna.

Árið 2018 veiddust 275 þúsund tonn af þorski og var aflaverðmætið 57,5 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Í fyrra veiddust 273 þúsund tonn og aflaverðmætist jókst upp í 70 milljarðar króna eða um 22%. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa veiðst 151 þúsund tonn og aflaverðmætið eru 40,2 milljarðar króna. Er það heldur meiri verðmæti á hvert kg en var 2019.

 

DEILA