Tjöruhúsið: innsiglað vegna staðgreiðslu

Magnús Hauksson, framkvæmdastjóri Tjöruhússins á Ísafirði sagði í samtali við Bæjarins besta að staðnum hafi verið lokað vegna þess að dregist hafði að skila staðgreiðslu launa vegna júlímánaðar sem voru á gjalddaga 15. ágúst. Hann sagði það þeim gjöldum yrði komið í skil í dag, mánudag. Deilt er um reiknað endurgjald og sagðist Magnús ekki vera sáttur við að eiga  reikna sér há laun allt árið fyrir rekstur sem er aðeins um hálft árið.

Virðisaukaskatturinn er í skilum sagði Magnús. „Skatturinn setti ítarlegar kröfur um kassakerfi í sumar sem við höfum  uppfyllt.“ Hann var ekki sáttur við lokunina. „Ég var norður í Grunnavík um helgina og ekki við á föstudaginn þegar lokað var. Það var líka lokað 2013 seint á föstudegi út af smávægilegu sem var svo  kippt í liðinn næsta mánudag.“

Magnús sagði að reksturinn hefði gengið mjög vel í sumar, en það hefði dregið verulega úr gestakomum eftir 20. ágúst. „Þá eru skólarnir að byrja og Íslendingarnir eru komnir heim til sín. Núna voru svo fáir útlendingar.“ Magnús sagði að opið yrði fram í október eins og venjulega.

 

 

DEILA