Teigsskógur: verður boðið út um leið og það er fært

Guðmundur Valur Guðmundsson. Mynd: visir.is

Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar segir að vegagerðin frá Hallsteinsnesi að Þórisstöðum verði boðinn út um leið og það verður fært.

Í minnisblaði til þingmanna Norðvesturkjördæmis frá Vegagerðinni, sem sagt var frá á Bæjarins besta  á mánudaginn, er gert ráð fyrir að þessi kafli, sem er um hinn umdeilda Teigskóg, verði ekki boðinn út fyrr en 2022 og verði fjórði og síðasti útboðsáfanginn.

Guðmundur Valur var því inntur eftir skýringum á því hvers vegna draga ætti útboðið svo lengi.

Í svarinu segir skýrt að boðið verði út fyrr ef það verður mögulegt en þá verði  útboðið að passa við aðra framkvæmdaáfanga/verksamninga sem verða þá vonandi komnir af stað.

„Ef allt leysist fyrr varðandi kæruferli þá getur þessi áfangi auðvitað verið partur af stærra heildarverki“ segir Guðmundur Valur.

Búið er að bjóða út fyrsta áfangann, vegagerð í Gufudalssveit. Í næsta mánuði verður þverun Þorskafjarðar boðin út.  Þriðji áfanginn er svo ráðgerður í útboð næsta vor, 2021 og er  það þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Loks er svo fjórði áfanginn, Teigskógur áformaður í  útboð vorið 2022. Samkvæmt minniblaðinu á öllum framkvæmdum að vera lokið 2023.

Beðið er úrskurðar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál um lögmæti framkvæmdaleyfisins fyrir allri vegagerðinni sem Reykhólahreppur hefur þegar gefið út. Ritari nefndarinnar hefur upplýst að úrskurður falli í þessum mánuði.

Verði kæru Landverndar hafnað er ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir og bjóða út allt verkið.

En Vegagerðin hefur ekki lokið samningum við landeigendur og stefnir í að fara verði fram á eignarnám í jörðunum Gröf og Hallsteinsnesi vegna andstöðu landeigenda.

Virðist á minnisblaði Vegagerðarinnar að hún geri ráð fyrir að það geti tekið á annað ár að ljúka því ferli. Í svörum Guðmundar Vals nú er í raun opnað á að bjóða út saman þriðja og fjórða áfanga verksins.

 

DEILA