Teigsskógur: stefnt að úrskurði í september

Horft yfir Þorskafjörð vestanverðan.

Ritari úrskurðarnefndar um umhverfis- og upplýsingamál segir í svari við fyrirspurn bæjarins besta að vegagerðin frá Skálanesi að austanverðum Þorskafirði sé umfangsmikil en í ljósi  upplýsinga frá Vegagerðinni er stefnt að úrskurði í málinu í september, nánari tímasetning innan mánaðarins liggur ekki fyrir.

Fyriri liggur að Landvernd hefur kært til  nefndarinnar útgefið framkvæmdaleyfi Reykhólahrepps til Vegagerðarinnar.

Í svarinu segir að úrskurðarnefndin hafi fengið þær upplýsingar frá Vegagerðinni að vinna sé hafin við endurbyggingu á 6,6 km kafla á núverandi Vestfjarðavegar (60) í Gufufirði frá Gufudalsá að Skálanesi, stefnt sé að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar í október 2020, en ákveðið hafi verið að bíða með framkvæmdir við Djúpadalsveg.

Úrskurðarnefndin hafnaði í byrjun júní kröfu Landverndar um að stöðva allar framkvæmdir þar til endanlegur úrskurður liggur fyrir en boðaði þá að hann kæmi innan lögboðins frests nefndarinnar, sem eru 3 mánuðir.

Vegagerðin hefur haft síðan í vor fullgilt framkvæmdaleyfi en hefur ekki viljað setja af stað framkvæmdir sem nefndin kynni síðar að  hafna.

 

 

 

DEILA