Suðureyri: 87 m.kr. hafnarframkvæmdir

Á árinu hefur verið unnið að endurbyggingu löndunarkants á Suðureyri fyrir 87 milljónir króna. Á síðasta ári var 20 m.kr. varið til verksins. Samtals er kostnaðurinn orðinn 107 m.kr. Heildaruppgjör hefur ekki verið gert en ljóst er að það vantar allan hönnunar og
eftirlitskostnað vegna verksins. Búist er við því að kostnaður sé innan fjárheimlda. Samkvæmt samgönguáætlun er kostnaður áætlaður 137,6 m.kr.

Ríkið greiðir 75% kostnaðar og hafnarsjóður 25%.

Þann 29. apríl sl var undirritaður samningur við Ísar ehf í Kópavogi vegna niðurrekstrar stálþils á Vesturkanti löndunarkants á Suðureyri og var samningsupphæð að undangengnu útboði kr.49.950.000. Þetta verk var unnið í maí og júní og gekk mjög vel, segir í minnisblaði hafnarstjóra og engin vandamál komu upp við framkvæmdina og verkinu lokið í júní.
Fjórða ágúst var undirritaður samningur við Geirnaglan ehf Strandgötu 7b í Hnífsdal að upphæð kr.37.464.950 vegna steypu á Þekju og er það verk núna í gangi og áætlað er að því verði lokið 15. október 2020 og á þar með að ljúka þessu verkefni. Geirnaglinn var eini verktakinn sem bauð í verkið.