Skorað á samgönguráðherra að koma til Súðavikur

Ágúst Kr. Björnsson fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík brást við frétt Bæjarins besta um grjóthrun á Súðavíkurhlíð með því að skora á ráðherrann að koma til Súðavíkur og hitta ráðamenn þar þegar hann kemur á næstunni og opnar Dýrafjarðargöngin fyrir umferð.

Ágúst segir að eina lausnin sé að gera jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar aðrar ráðstafanir dugi ekki.

Áskorun Ágústar birtist sem athugasemd við fréttina á bb.is:

„Leiðin á milli Ísafjarðar og Súðavíkur er með hættulegri vegleiðum í öllu þjóðvegakerfinu á Íslandi. Á Hlíðinni eru um 25 virkir snjóflóðafarvegir og falla um 140 snjóflóð á hverjum vetri í þessum snjóflóðafarvegum. Flest falla þau á þriggja mánaðar tímabili, jan/feb/mars. Þá er grjóthrun mjög algengt á stórum hluta leiðarinnar.
Þetta verður ekki leyst með því að grafa í vegrás, með vegskálum eða stálþiljum. Göng á milli Súðavíkur og Ísafjarðar er eina vitræna leiðin til að skapa viðunandi öryggi á þessari þjóðleið íbúa á norðanverðum Vestfjörðum og er besta leiðin til að nýta og fara vel með fjármagn. Súðavíkurgöng þurfa að komast á framkvæmdaáætlun strax. Vonandi kemur samgönguráðherrann
Sigurður Ingi Jóhannsson við hjá Súðvíkingum og skoðar aðstæður þegar hann opnar og klippir á borðann í Dýrafjarðargöngum núna í október. Ég skora á hann að koma við á Súðavíkurhlíðinni og hitta ráðamenn og skoða aðstæður.“

DEILA