Sanddæling í Álftafirði kærð

Sanddæluskipið Dísa. Mynd: Bragi Thoroddsen.

Í byrjun síðustu viku var kærð efnistaka úr Álftafirði á vegum Kubbs ehf á Ísafirði norðan Hattareyrar í Álftafirði. Einar Pétursson, framkvæmdastjóri Steypustöðvar Ísafjarðar ehf  staðfesti að athugasemd hafi verið gerð við sandælinguna og því haldið fram að hún hafi verið utan þess svæðis sem fyrirtækið hefður leyfi fyrir. Leyfishafinn er Kubbur ehf sem á svo 50% hlut í Steypustöð Ísafjarðar ehf. Sanddæluskipið Dísa hafði þá lokið dælingu fyrir steypustöðina og fyrirtækið gæti sinnt sínum verkefnum nú í haust. Töluvert hefur verið um verkefni m.a. vegna Dýrafjarðarganga.

Það er Orkustofnun sem gefur út nýtingarleyfi fyrir efnistökunni og  Kristján Geirsson sagði að stofnunin hefði óskað eftir ákveðnum upplýsingum um ákveðin atriði vegna framkvæmdarinnar og beðið væri svara frá Kubbi. Málið er til skoðunar hjá stofnuninni en á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort fyrirtækið hafi farið út fyrir heimildir sínar skv. leyfinu.

Aðspurður sagði Kristján að út af fyrir sig væru engin fjárhagsleg viðurlög við brotum á ákvæðum leyfisins, en viðbrögð yrðu metin út frá atvikum málsins. Hugsanleg viðbrögð gætiu verið áminning eða krafa um úrbætur og þá væri heimild fyrir afturköllun leyfisins.

Núverandi nýtingarleyfi var gefið út 16.4. 2019 og gildir til 16.4. 2022 og hljóðar upp á leyfi til töku á möl og sandi af hafsbotni norðan við Hattareyri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp allt af 25.000 rúmmetrum. Segir í leyfinu að að efnið skuli ekki tekið grynnra en á 6 metra dýpi og skuli ekki sótt á þessu minnsta leyfða dýpi lengra en 2 metra ofan í hafsbotn.

DEILA