MakeAthon í Bolungarvík og Ísafirði

Matís í samstarfið við fyrirtæki og stofnanir stendur fyrir MakeAthon dagana 11. til 13. september n.k. undir nafninu MAKEit.  Um er að ræða nýsköpunarkeppni þar sem lögð er áhersla á verðmætasköpun úr hliðarafurðum úr sjávarafurðum og eldi. Nýsköpunarkeppnin verður haldin í Félagsheimilinu í Bolungarvík og Djúpinu þar sem rúmlega 20 ungmenni munu keppa í nokkrum hópum, undir leiðsögn sérfræðinga. Áskorunin er að þróa vöru úr hliðarafurð úr laxavinnslu með verðmætasköpun og sjálfbærni að leiðarljósi.

Hvað er MAKEit?

MAKEit er Evrópskt verkefni sem nær til 11 landa og er stýrt frá Cambridge háskólanum í Bretlandi, þar sem ungmenni keppa um bestu nýsköpunarhugmyndina. Keppnin er haldin undir slagorðinu „að skapa snjallari og einfaldari virðiskeðju fyrir matvæli“. Fjögur MAKEit verða haldin á Íslandi á sama tíma, í Reykjavík, á Akureyri, á Norðfirði og í Bolungarvík/Ísafirði.

Viðfangsefni á Vestfjörðum

Viðfangsefni Vestfirðinga verður að þróa vöru úr hráefni úr laxavinnslu sem skafið er af hryggjum eftir flökun. Besta kjötið er einmitt við beinin og því er um einstakt hráefni að ræða þar sem hugmyndaflugið verður nýtt til að hámarka verðmæti og draga úr sóun, en hingað til hefur þetta kjöt farið með beinum í dýrafóður.

Fyrirtækið 3X Technology hefur verið að þróa búnað í samstarfi við Eðalfisk í Borgarnesi til að skafa kjötið af beinagarðinum og gert er ráð fyrir að umtalsvert magn geti lagst til úr vinnslu Eðalfisks, sem framleiðir laxaafurðir á innanlandsmarkað og til útflutnings.

Hver er tilgangurinn?

Þetta snýst ekki bara um áfangastaðinn (nýja verðmæta afurð), heldur ekki síður um leiðina þangað (vinnu við að þróa hana) þar sem þátttakendur ná niðurstöðu með samvinnu og hópefli undir leiðsögn sérfræðinga. Sú vinna mun opna hug þeirra fyrir rannsóknum og þróun og mikilvægi nýsköpunar.

MakeAthon beinir þannig ungu fólki inn á brautir nýsköpunar þar sem lausnir eru fundnar með samstarfi og samtakamætti. Ekki spillir fyrir ef hugmyndir sem þarna fæðast skila verðmætum sem nýst geta nærumhverfi og eflir atvinnulíf.

Samstarfsaðilar

Samstarfsaðilar við verkefnið er nýsköpunar og samfélagsmiðstöðin Djúpið í Bolungarvík, Vestfjarðastofa, Arctic Fish, Fisherman á Suðureyri, Eðalfiskur í Borgarnesi og 3X Technology.

Gengiliður við verkefnið er Gunnar Þórðarson hjá Matís, sími 8585110 og netfang gunnar@matis.is

Skráning í MakaThon er: https://matisprojects.com/makeathon/

DEILA