Líkamsrækt á Ísafirði: óskað eftir tillögum rekstraraðila

Rætt var á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn um aðkomu Ísafjarðarbæjar að rekstri og staðsetningu líkamsræktarstöðvar á Ísafirði. Viðræður hafa staðið yfir síðustu mánuði milli bæjaryfirvalda og tveggja líkamsræktarstöðva, annars vegar Þrúðheima sem hafa verið með rekstur Studio Dan og Ísófit sem rekur krossfitstöð í Sindragötu. Liggur fyrir samningur til þriggja ára milli bæjarins og Ísófit um rekstur sem yrði í húsnæði Stúdío Dan að Hafnarstræti.

Eigendur Þrúðheima hafa gagnrýnt bæjaryfirvöld og birt opinberlega nýlegt bréf þeirra til bæjarins.

Í listinn óskaði eftir því að málið yrði á dagskrá  og Arna Lára Jónsdóttir hafði framsögu og lagði hún fram bókun þar sem óskað er eftir því að fá tillögur þær sem rekstraraðilarnir tveir  gerðu til bæjarins  svo hægt verði að taka ákvörðun í málinu.

„Bæjarfulltrúar Í-listans beina þeim tilmælum til meirihluta bæjarstjórnar að gæta þess að brjóta ekki gegn stjórnsýslulögum við ákvörðun um samning um líkamsræktaraðstöðu. Fram kemur í bréfi Þrúðheima að þau telji að við meðferð málsins sé ekki gætt að 10., 11., 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það þarf að fara vandlega ofan í saumana á því hvort sú fullyrðing standist og fylgja í hvívetna innkaupareglum Ísafjarðarbæjar áður en til ákvörðunar kemur.
Fulltrúi Í-listans í bæjarráði hefur þegar óskað eftir að fá afhentar þær tillögur sem bárust um líkamsræktaraðstöðu svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun með hag íbúa Ísafjarðarbæjar að leiðarljósi og að það sé tryggt að gætt sé að jafnræðisreglunni við meðferð málsins.“

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs svaraði með bókun þar sem áréttað er að málið hafi verið bæði kynnt og rætt í bæjarráði og unnið í samvinnu allra framboða.

„Vegna umfjöllunar sl. daga á samfélagsmiðlum og umræðu hér í bæjarstjórn um líkamsræktarmál.

Það má taka undir það að það hefur dregist að fá niðurstöðu í umrætt mál. Betra hefði verið að fá niðurstöðu í það miklu fyrr þannig að ekki hefði þurft að framlengja núverandi samninga eins og gert hefur verið.

Meirihlutinn áréttar að allar ákvarðanir og umræða um þetta mál hafa verið lögð fyrir bæjarráð og málið unnið í samvinnu allra framboða í bæjarstjórn og þeim gefin kostur á að gera athugasemdir við málsmeðferðina og haft áhrif á niðurstöðuna.

Það eina sem vakir fyrir okkur í þessari vegferð er að geta boðið bæjarbúum upp á betri líkamsræktaraðstöðu öllum bæjarbúum til hagsbóta. Sú tillaga sem nú hefur verið gengið til samninga um er talin best til þess fallin með hliðsjón af kostnaði og þeirri aðstöðu sem á að bjóða upp á.“

DEILA