Lengjudeildin: Vestri tryggði sæti sitt í deildinni

Frá leik Vestra og Keflavíkur á föstudaginn.

Knattspyrnulið Vestra í Lengjudeildinni hefur náð þeim árangri að tryggja áframhaldandi veru sína í deildinni næsta sumar þótt enn séu fjórar umferðir eftir. Vestir er komið með 26 stig og er í sjöunda sæti af tólf.

Tvö lið falla úr deildinni og eftir leiki helgarinnar eru þrjú lið sem örugglega verða fyrir neðan Vestra og eru tvö þeirra líkleg til þess að falla úr deildinni niður í 2. deild.

Vestri tók á móti toppliði Keflavíkur á föstudaginn og komust yfir 1:0 í fyrri hálfeik. Í síðari hálfleik voru Keflvíkingar sterkari og skoruðu tvö mörk um miðjan hálfleikinn. Undir lokin sótti Vestri ákaft og freistaði þess að jafna leikinn. Skapaði liðið sér ágæt færi sem ekki tókst að nýta og í uppbótartíma náðu Keflvíkingar skyndisókn gegn fáliðaðri vörn heimamanna og skoruðu þriðja markið og unnuð leikinn 1:3.

Hins vegar töpuðu neðstu liðin einnig sínum leikjum og  er nú víst að Vestri verður ekki neðar en í 9. sæti og áframhaldandi vera í deildinni er því tryggð.

Frammistaða Vestra er framar vonum þetta fyrsta tímabil liðsins í næstefstu deild og gefur góðar vonir um að liðið muni næsta sumar gera atlögu að efstu sætunum í deildinni.

Það vinnur með möguleikum Vestra að á næstu 12 mánuðum er ráðgert að reisa fjölnota knatthús og setja gervigras á knattspyrnuvöllinn á Torfnesi. Við það batnar öll aðstaða til æfinga og keppni mjög og verður sambærileg við það sem önnur lið í deildinni búa við.

DEILA