Knattspyrna: Hörður lauk tímabilinu með sigri

Leikmaður og Harðverji ársins Sigurður Arnar Hannesson, og efnilegasti og markhæsti leikmaðurinn. Guðmundur Páll Einarsson, fæddur 2005.

Íþróttafélagið Hörður sendi lið í 4. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Keppnistímabilinu lauk um helgina og Hörður vann góðan sigur í síðasta leiknum 4:1 gegn Midasi í Reykjavík. Þráinn Ágúst Arnaldsson, Guðmundur Páll Einarsson og Sigurður Arnar Hannesson (2 mörk) gerði mörk Ísfirðinga í leiknum sem fór fram á Skeiðisvelli í Bolungavík.

Hörður endaði í 7. sæti í sínum riðli með 10 stig eftir 14 leiki.

Sigþór Snorrason, formaður knattspyrnudeildar Harðar var bærilega ánægður með árangurinn eftir sumarið. Hann sagði að liðið hefði verið mjög ungt og margir leikmenn innan við tvítugt. „Við spiluðum mjög djarfan sóknarbolta og skoruðum mörg mörk.“

Leikmaður og Harðverji ársins var Sigurður Arnar Hannesson. Hann var einnig markahæstur  í riðlinum með 19 mörk skoruð og var jafnframt með markhæstu mönnum deildarinnar.

Þá var Guðmundur Páll Einarsson kjörinn efnilegasti leikmaðurinn, en hann er aðeins 15 ára, fæddur 2005.

Sigþór sagði að rekstur deildarinnar hefði gengið vel, útgjöldum var haldið í lágmarki, „við lékum tvo útileiki í hverri ferð og fórum á eigin bílum.“

DEILA