Alls var landað 2.673 tonnum í Ísafjarðarhöfn í síðasta mánuði. Þar af voru 247,9 tonn innflutt rækja með norsku skipi. Landaður afli var því um 2.416 tonn í mánuðinum.
Gunnvör ÍS landaði 62 tonnum af rækju og Sveinbjörn Hjálmarsson kafari 220 kg af ígulkerjum en að öðru leyti var aflinn botnfiskur veiddur í troll.
Júlíus Geirmundsson ÍS var með 570 tonn af afurðum lönduð eftir tvær veiðiferðir. Það jafngildir 1.018 tonnum af afla. Páll Pálsson ÍS landaði litlu minna eða 540 tonnum eftir fimm veiðiferðir. Stefnir ÍS varð aflahæstur með 626 tonn lönduð. Líta verður þó til þess að Júíus Geirmundsson ÍS er frystitogari og er með vinnslu um borð.
Tveir aðkomubátar voru að veiðum frá Ísafirði í mánuðinum. Helga María RE landaði 255 tonnum eftir þrjár sjóferðir og Frosti ÞH 330 tonn eftir 6 róðra.
Heildaraflinn að teknu tilliti til innfluttu rækjunnar og þess að Júlíus Geirmundsson ÍS landar afurðum verður þá 2.864 tonn.