Ísafjarðarbær: bókanir um niðurlagningu starfa

Deilt var hart um niðurlagningu tveggja starfa hjá Ísafjarðarbæ í sumar á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn fimmtudag, eins og frá hefur verið greint á Bæjarins besta. Hér koma bókanir sem lagðar voru fram í umræðunum.

Vilja ræða skýrslu Haraldar Líndal á næsta fundi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans, lagði fram eftirfarandi bókun, f.h. Í-listans.

„Bæjarfulltrúar Í-listans harma þann trúnaðarbrest sem hefur orðið á milli minnihluta og meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar við það, er virðist, einhliða ákvörðun bæjarstjóra að leggja niður tvö störf á umhverfis- og eignasviði og þar með segja upp tveimur starfsmönnum. Þetta var gert án nokkurs samráðs við minnihluta bæjarstjórnar.

Á fundi með Haraldi Líndal þann 8. maí sl. þar sem tillögur um breytingar á rekstri voru kynntar og þar á meðal breytingar á skipuriti umhverfis og eignasviðs, voru bæjarfulltrúar sammála um að ekki kæmi til uppsagna. Skýrslan hefir ekki verið lögð fram með formlegum hætti og hafa bæjarfulltrúar ekki haft tækifæri til að ræða hana sína á milli.
Bæjarfulltrúar Í-listans telja að bæjarstjóri hafi farið fram úr valdheimildum sínum með því að leggja niður þessi sem eiga sér stoð í skipuriti sveitarfélagsins og vísum við þar í sveitastjórnarlög nr. 138/2011 og í fjórðu greina bæjarmálasamþykktar Ísafjarðarbæjar.
Annar hlutaðeigandi málsins hefur leitað til lögfræðings og bréfi frá honum dagsett 31. ágúst 2020 til formanns bæjarráðs, bæjarstjóra og fulltrúa Í-listans í bæjarráði kemur fram að hann telji einnig um að um brot á stjórnsýslulögum sé að ræða.

Bæjarfulltrúar Í-listans hafa verið að óska eftir upplýsingum um þennan gjörning.

Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn Nannýjar Örnu Guðmundsdóttir fulltrúa Í-listans varðandi niðurlagningu starfa sem bárust þann 12. ágúst sl,. er fátt um svör og eru ófullnægjandi með öllu.

En er ósvarað þeim fyrirspurnum sem beint er til meirihluta bæjarstjórnar varðandi stefnu og sýn í umhverfismálum, og enn er fullkomlega óljóst hvernig meirihlutinn sér fyrir sér nýtt skipurit umhverfis- og eignsviðs. Gögn varðandi fullyrðingar bæjarstjóra um að annar starfsmaðurinn hafi sjálfur óskað eftir starfslokum ekki verið birt bæjarfulltrúa og af því drögum við þá ályktun að þessi gögn séu ekki til og að fullyrðing bæjarstjóra standist ekki skoðun.

Bæjarfulltrúar Í-listans fara fram á að skýrsla HLH ráðgjafar verði lögð fram til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.“

Breytingar í starfsmannahaldi stöðugt á dagskrá

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi D-lista Sjálfstæðisflokks, lagði fram eftirfarandi bókun, f.h. Sjálfsstæðisflokks og Framsóknarflokks:

„Eðli máls samkvæmt er erfitt og í raun óheimilt út frá persónuvernd að fjalla um málefni einstaka starfsmanna og því ekki mögulegt að ræða starfsmannamál á opnum fundi í bæjarstjórn nema með almennum hætti.

Hjá Ísafjarðarbæ starfa á fjórða hundrað starfsmanna. Laun eru langstærsti útgjaldaliður bæjarins en um 60% af útgjöldum bæjarins er launakostnaður, hátt á þriðja milljarð króna árlega. Það gefur því augaleið að það er mikilvægt að mönnun sé rétt á hverjum tíma þannig að launskostnaður fari ekki úr böndunum og nýtist þar sem þörfin er hverju sinni.

Breytingar í starfsmannahaldi eru til meðferðar nánast alla daga ársins. Störf eru stofnuð, þeim er breytt og þau eru lögð niður. Fram að þessu hefur það verið í höndum starfsmanna bæjarins að sjá um að manna þau verkefni sem eru til staðar, innan ramma fjárhagsáætlunar.

Nú bregður svo við að í þessum ákveðna máli að Í-listinn vill fara nýjar leiðir og virðist ætla að í þessu tilviki sé það bæjarstjórnar að ákveða hvernig vinnutilhögun sé. Vísar þar til þess að þær mannabreytingar sem hér um ræðir séu stefnumarkandi. Svo er ekki. Verkefnin verða unnin áfram en það er mat yfirmanna bæjarins að hægt sé að vinna þau með öðrum og hagkvæmari hætti og því ekki um neina stefnumarkandi ákvörðun að ræða. Hafa ber í huga að talið er að sparnarður af þessari aðgerð sé hátt í á þriðja tug milljóna árlega þegar að þær eru gengnar í gegn. Þess vegna var þessi aðgerð skynsamleg.

Engu að síður er að sjálfsögðu alltaf eftirsjá í starfsfólki. Sérstaklega þegar að það hefur unnið lengi hjá bænum. Þá er mikilvægt að komið sé til móts við það eins vel og hægt er þannig að allir geti við unað. Ekki fæst annað séð en að þess hafi verið gætt í umræddu máli.

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokk í bæjarstjórn.
Daníel Jakobsson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Hafdís Gunnarsdóttir, Kristján Þór Kristjánsson og Sif Huld Albertsdóttir.“

DEILA