HS Orka: Hvalárvirkjun passar vel í raforkuframleiðslu á Íslandi

Tómas Már  Sigurðsson, forstjóri HS Orku  segir að Hvalárvirkjun sé virkjunarkostur sem passar vel í raforkuframleiðslu á Íslandi og mætir þeirri sveifluþörf sem myndast á almenna markaðnum með mismunandi notkun innan dags og á milli árstíða.

Tómas var inntur eftir því hvort Hvalárvirkjun félli undir þann flokk virkjana, sem Tómas telur ósennilegt að verði reistar í bráð. Í viðtali við Morgunblaðið síðasta fimmtudag segir Tómas Már að ósennilegt sé að reistar verði fleiri stórvirkjanir í bráð  og að framtíðin sé að nýta betur afl frá þeim auðlindum sem þegar hafi verið virkjaðar. Er sagt frá því að HS Orka hyggist hefjast handa við 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar á næstunni.

„Þó Hvalárvirkjun sé skráð sem 55 MW virkjun þá er hún í raun 35 MW virkjun með aukinni aflgetu til að framkallað sveiflugetu. Við lítum því ekki á Hvalárvirkjun sem stórvirkjun. Heldur miklu frekar sem virkjunarkost sem passar vel í raforkuframleiðslu á Íslandi og mætir þeirri sveifluþörf sem myndast á almenna markaðnum með mismunandi notkun innan dags og á milli árstíða.“

Aðspurður sagði Tómas Már að HS Orka hafi ekki gert neitt í því að leita að kaupendum að verkefninu.

DEILA