Drangsnes: leigufélagið Bríet fær afhent nýtt parhús til útleigu

Frá afhendingu íbúðanna á Drangsnesi. Mynd: stjornarradid.is

Leigufélagið Bríet fékk á þriðjudaginn afhent nýtt parhús sem byggt var á Drangsnesi. Kaldrananeshreppur hafði umsjón með framkvæmdinni; úthlutaði lóð, hannaði húsið, fjármagnaði og framkvæmdi verkefnið en Bríet kaupir íbúðirnar tilbúnar og sér um útleigu. Í fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins segir að fjölgun íbúðarhúsnæðis á Drangsnesi um tvær íbúðir þýðir um 4,2% aukning húsnæðis í bæjarfélaginu. Slík fjölgun jafnast hlutfallslega á við um 2.280 íbúða aukningu í Reykjavík, 350 íbúða aukningu á Akureyri og 72 íbúða aukningu á Ísafirði svo dæmi séu tekin.

Íbúðirnar eru báðar fjögurra herbergja eða 94,3 m² hvor. Húsið er timburhús á einni hæð sem byggt er á  steyptum undirstöðum. Útveggir eru klæddir með málmplötum og timbri að hluta. Þakið er létt timburþak klætt með bárujárni. Byggingarmáti er mjög hefðbundinn og er dæmigerður fyrir meirihluta íbúða í íbúðastokk sveitarfélagsins þar sem um helmingur íbúðanna í sveitarfélaginu er í sambærilegum timburhúsum.

Leigufélagið Bríet er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, stofnað af norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónamiða.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er virkilega ánægjulegt að koma hingað á Drangsnes og sjá þetta glæsilega parhús fullrisið. Ég kom hingað fyrir rúmu ári síðan til að undirrita reglugerð í húsgrunninum sem miðar að því að örva húsnæðismarkaðinn á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt undanfarna áratugi vegna markaðsbrests. Þessi aðgerð styður beint við atvinnuuppbyggingu á fjölmörgum stöðum um land allt og hjálpar þannig landsbyggðinni að dafna.

Finnur Ólafsson, oddviti í Kaldrananeshreppur : „Við í sveitarstjórninni erum mjög lukkuleg með þennan áfanga í húsnæðismálum sveitarfélagsins. Það er og hefur lengi verið þörf á leiguhúsnæði á svæðinu. Þá er það sérstaklega jákvæð þróun að ungt fólk sé að koma á svæðið og byrja sinn búskap í sveitarfélaginu. Við höfum verið verið leita ýmissa lausna við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis vegna þess markaðsbrests sem er út á landi og  erum þakklát ráðherra og starfsfólki Bríetar fyrir alla aðstoðina og ráðgjöf.

 

DEILA