Bolafjall fái 100 þúsund gesti fyrir árið 2030

Bæjarráð Bolungavíkur hefur samþykkt að hefjast handa við þróunarverkefni um Bolafjall sem miðar að því að byggja upp framtíðarstefnu og aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára.

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að sett væri fram sú framtíðarsýn að útsýnispallurinn á Bolafjalli, sem nú er verið að byggja, muni draga að 100 þúsund ferðamenn á ári fyrir 2030. Þróunarverkefnið til þess að undirbyggja það markmið. Þar komi ýmislegt til athugunar sem vinna þarf að til þess að markmiðið náist. Nefndi Jón Páll að ferðalag upp á Bolafjall væri líka ferðalag til Bolungavíkur og því þyrfti að huga að skipulagi bæjarins, aðkomunni inn í bæinn, þjónustunni sem til staðar væri bæði í bænum og hvers konar þjónustu veita ætti upp á fjallinu og svo framvegis.

Í kynningu á verkefninu er litið til Nord Kapp í Noregi og byggt á þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað.

DEILA