Bíldudalur: átta íbúðir byggðar

Vesturbyggð hefur falið  Bæjartúni íbúðafélagi hses. byggingu fjögurra íbúða húss á Bíldudal við Lönguhlíð 16B  og felur bæjarstjóra að undirrita samning við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir hönd Vesturbyggðar vegna veitingu stofnframlags ríkisins. Það er fyrirtækið Hrafnshóll ehf sem hefur fengið byggingarleyfi fyrir íbúðunum. Stærð hússins er 257 fermetrar.

Hrafnshóll ehf hefur auk þess fengið byggingarleyfi fyrir öðru sams konar húsi við Lönguhlíð 16A. Samtals verða byggðar átta íbúðir í þessum tveimur húsum.

Bæjarstjórn samþykkti  byggingaráformin með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar. Var skipulagsfulltrúa falið að grenndarkynna framkvæmdina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Útfæra þarf bílastæði fyrir húsin fyrir grenndarkynningu, segir í samþykkt bæjarstjórnar.

Stofnframlag ríkisins nemur 18% af byggingarkostnaði. Sveitarfélagið leggur til 12% og því til viðbótar fékk Vesturbyggð sérstakt byggðaframlag 15,7 m.kr.

Áætlaður kostnaður við hverja íbúð er um 32,5 m.kr. og er stofnframlagið því nærri 6 m.kr. á hverja íbúð og framlag sveitarfélagsins tæpar fjórar milljónir króna. Byggðaframlagið er svipað á hverja íbúð og framlag sveitarfélagsins.

DEILA