Andlát: Helgi Sigurjón Ólafsson

Fyrsti varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og fyrrum starfsmaður félagsins Helgi Sigurjón Ólafsson andaðist  mánudaginn 31. ágúst eftir erfið veikindi.

Helgi var alla tíð ötull baráttumáður fyrir réttinda- og fræðslumálum innflytjenda og beitti sér ötullega fyrir málefnum þeirra á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir stofnun Verk Vest var Helgi formaður Verkalýðsfélags Hólmavíkur sem undir forystu hans frá árinu 1982 tók virkan þátt í samningagerð Alþýðusambands Vestfjarða (ASV).  Í kjölfarið óx virkni félagsins á Hólamvík; haldið var upp á 1. maí ár hvert, félagið stóð fyrir námskeiðum af ýmsu tagi og þjónusta við félagsmenn jókst. Undir forystu Helga stóðu félagsmenn á Hólmavík ásamt fjórum öðrum félögum innan ASV að sjö vikna verkfalli landverkafólks vorið 1997. Verkalýðsfélag Hólmavíkur var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2000 og var Helgi varaformaður til ársins 2007 ásamt því að sinna fjöldanum öllum af trúnaðarstörfum fyrir félagið. Helgi starfaði hjá Verk Vest allt til ársins 2017 en þá lét hann af störfum sökum aldurs.

Útförin fer fram í dag frá Keflavíkurkirkju.

DEILA