Vestri vann toppliðið 1:0

Frá leiknum í gærkvöldi.

Knattspyrnulið Vestra heldur áfram að gera það gott í Lengjudeildinni. Tíunda umferðin af 22 fór fram í gærkvöldi og fékk vestri topplið Leiknis í Breiðholtinu í heimsókn. Fyrir leikinn var Leiknir efst í deildinni ásamt liði Keflavíkur með 20 stig en Vestri var í 6. sæti með 12 stig.

Vestramenn áttu skínandi leik og fóru með sigur af hólmi með einu marki gegn engu.  Það var Viktor Júliusson sem skoraði markið á 60. mínutu. Vestri átti fleiri góð færi sem ekki nýttust og segja má að sigurinn hafi verið verðskuldaður, þótt því sé ekki að leyna að Breiðhyltingarnir hafa góðu liði á að skipa.

Eftir leikinn er Vestri sem fyrr um miðja deild, í 6. sæti af 12 með 15 stig.  Liðið er 8 stigum á eftir efsta liðinu, Keflavík  en 11 stigum fyrir ofan fallsæti.

Fer staða Vestra að verða vænlega nú þegar deildin er nálega hálfnuð. Fyrir mótið var talið gott ef nýliðarnir  héldu sæti sínu í deildinni og þar virðist ætla að verða raunin, ef svo fer fram sem horfir, og það með glæsibrag.

DEILA