Velferðarkerfið er öryggisnet sem á að grípa fólk

Stærsta verkefnið framundan, fyrir utan að tryggja heilsu og velferð, er að sjá til þess að fólk hafi örugga framfærslu og  tryggja góð störf fyrir alla. Það versta sem við gerum í stöðunni er að missa einstaklinga í litla virkni og fátækt með þeim niðurrífandi áhrifum sem það hefur á einstaklinga og þar með samfélagið allt.

Það er áhyggjuefni að ráðamenn skuli teikna upp þá mynd að fólk vilji ekki vinna. Að erfitt sé að fá fólk til að leggja hönd á plóg. Þessir ráðamenn hafa talað við „fjölda atvinnurekenda“ sem vantar fólk í vinnu. Við sem vinnum í verkalýðshreyfingunni höfum rætt við fjölda atvinnulausra sem er ekki síður mikilvægt að tala við – jafnvel mikilvægara. Einstæða móðirin sem hefur misst vinnuna, henni býðst tveggja mánaða tímabundinn ráðningasamningur í öðru bæjarfélagi á lágmarkslaunum, ekkert húsnæði, engin dagvist fyrir börnin. Getur hún tekið slíku kostaboði? Öðrum býðst ólöglegur núlltímasamningur þar sem ekkert skilgreint starfshlutfall er í boði en þú skuldbindur þig til að vinna þegar vinnu er að hafa. Engin afkomutrygging, ekki vitað um launin því þau fara eftir verkefnunum frá degi til dags.

Manneskjan sem hefur unnið við skrifstofustörf mestan sinn starfsaldur en býðst tímabundin vinna við slátrun, hefur enga þekkingu á því sviði og ekki líkamlega burði í slíka erfiðisvinnu.

Þegar þessi söngur ómar um að ekki sé hægt að fá fólk í vinnu skulum við spyrja – hvaða vinnu og fyrir hvern? Við hvaða skilyrði?

Sú hugmynd að fólk velji frekar að nýta réttindi til atvinnuleysistrygginga en að vinna  er ekki rétt. Í alþjóðlegum samanburði eru atvinnuleysistryggingar góðar á Íslandi en hér er atvinnuþátttaka jafnframt með hæsta móti. Horfum til reynslunnar frekar en úreltrar hugmyndafræði. Verkefnið núna snýst um að styrkja okkar öryggisnet til að tryggja fólki farborða og koma þannig í veg fyrir að kreppan verði dýpri og lengri en hún þarf að vera. Þetta mætti Seðlabankastjóri og fleiri hafa í huga.

Það skynsamlegasta sem við gerum er að styðja við atvinnuleitendur, fjárhagslega og með öðrum hætti. Efla fólk og mennta það, en fyrst og fremst vera mannúðleg í okkar nálgun og minnast þess að velferðarkerfi eru til þess að grípa fólk – nú reynir á þau kerfi!

Kveðja,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA