Tungumálatöfrar: áhugafélag um fjöltyngi og fjölmenningu stofnað á Ísafirði

Nýkjörin stjórn Tungumálatöfra. F.v. Agnieszka M. Tyka, Guðmundur Hálfdánarsson, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, Iwona Samson, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir. Á mynd vantar: Gunnhildi Gunnarsdóttur og Sigurð Arnórsson.

Fjölmörg fyrirtæk og stofnanir komu að stofnuna áhugafélags um fjöltyngi og fjölmenningu á Ísafirði sl. laugardag á Ísafirði. Félagið ber nafnið Tungumálatöfrar og er kennt við námskeið sem rekið hefur verið af Edinborgarhúsinu á Ísafirði undanfarin þrjú ár en er nú sjálfstæð rekstrareining í samstarfi við húsið. Tungumálatöfrum er ætlað að standa að íslenskunámskeiðum fyrir börn og unglinga. Námskeið fyrir 5 – 11 ára börn hefur verið haldið fyrstu vikuna í ágúst árlega í fjögur ár og fer kennslan fram í gegnum listir og leik. Það er opið öllum börnum en sérstakur gaumur er gefinn að börnum af erlendum uppruna og börnum sem eiga íslenskar rætur en búa erlendis. Farið var af stað með útivistarnámskeið fyrir unglinga á þessu ári og er það vísir að sumarbúðum á Vestfjörðum sem félagið vill þróa.

 

Félagið er stofnað með það fyrir augum að breikka starfssemina og opna samtalið við aðila sem sinna sambærilegu starfi víðar um landið.

 

Í nýskipaðri stjórn félagsins sitja Anna Hildur Hildibrandsdóttir sem er formaður og upphafsmanneskja verkefnisins, Agnieszka M. Tyka frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Guðmundur Hálfdánarsson frá Prófessorembættisinu Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri, Gunnhildur Gunnarsdóttir frá Lýðskólanum á Flateyri, Iwona Samson frá Ísafjarðardeild Rauða Krossins, Sigurður Arnórsson frá FOS-vest, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir sem fóstraði verkefnið þegar hún var starfsmaður Edinborgarhússins og er gjaldkeri þess.

Að stofnun þessa nýja félags koma Edinborgarhúsið ehf., Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Fiskvinnslan Íslandssaga hf., Fjölmenningarsetur, Ísafjarðardeild Rauða Krossins, Klofningur ehf., Lýðskólinn á Flateyri, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Prófessorsembættið á Hrafnseyri og Verkalýðsfélag Vestfirðinga. Aðild að félaginu er opin og hafa fleiri fyrirtæki og stofnanir sýnt því áhuga.

DEILA