Stjórnsýsla í ruslflokki

„Grundvöllur faglegra ákvarðana er að allar upplýsingar í viðkomandi máli liggi fyrir, þannig er hægt að vega og meta alla kosti og galla og möguleg tækifæri og hættur samhliða endanlegri ákvörðun.“

Með þessari flottu setningu byrjaði formaður bæjarráðs, Daníel Jakobsson, eina grein sína á um daginn.  Allt gott og blessað að segja um það, en vandamálið er hinsvegar það að á bak við þessi orð er líklega engin innistæða hjá formanni  bæjarráðs eða hans hópi í meirihlutanum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.  Það má lesa út úr atburðum líðandi árs, sem einkennast af fúski, hvatvísi og geðþótta ákvörðunum.

Í þessari grein verða tiltekin tvö mál, sem eru því miður bara dæmi um þau einstaklega óvönduðu vinnubrögð sem stunduð eru af núverandi meirihluta og hans bæjarstjóra.

Brottrekstur tveggja starfsmanna

Það kom okkur bæjarfulltrúum Í-listans verulega á óvart að heyra af því þegar tveir starfsmenn Ísafjarðarbæjar fengu uppsagnarbréf seinustu daga júní mánaðar, á grundvelli skýrslu HLH ráðgjafar, sem er órædd meðal bæjarfulltrúa og enn er flokkuð sem trúnaðarmál. Það kom ekki síst á óvart þar sem allir bæjarfulltrúar höfðu lýst yfir samstöðu um að hrinda ekki í framkvæmd tillögum úr skýrslunni sem snúa að uppsögnum starfsmanna í ljósi aðstæðna tengdum Covid19.

Í tillögum HLH ráðgjafar var annarsvegar lagt til að; „starf yfirmanns eignasjóðs og umsjónarmanns Fasteigna Ísafjarðarbæjar verði sameinuð.“  Og hinsvegar að; „starf umhverfisfulltrúa verði lagt niður.“  Þar sem skýrsla HLH ráðgjafar er enn órædd, er algerlega óvíst hverju þessar tillögur skila bænum og hvort yfirleitt sé mögulegt að færa öll verkefni umræddra starfsmanna yfir á aðra starfsmenn.

Þá er framkoman gagnvart yfirmanni eignasjóðs sem hefur starfað hjá Ísafjarðarbæ og þar áður Ísafjarðarkaupstað í yfir 46 ár er einstaklega ósmekkleg.  Og ekki bara það, heldur algerlega óskiljanleg því með starfsmanninum hverfur mjög mikilvæg þekking og vinnuframlag.  Meintur launasparnaður kemur hugsanlega fram eftir rúmt ár, þegar biðlaunatíma líkur.  Þessi gjörningur er því líklegri til að valda Ísafjarðarbæ umtalsverðum skaða, frekar en einhverjum ágóða. Þá er það líka augljóst að bæjarstjóri (sem segist bera alla ábyrgð á uppsögnunum) hafi ekki valdsvið til að breyta skipuriti bæjarins án aðkomu bæjarstjórnar og verknaðurinn er því líklega klárt brot á stjórnsýslulögum.

Ef þetta mál væri rétt unnið hefði átt að segja upp báðum starfsmönnum og auglýsa nýtt starf byggt á ígrundaðri starfslýsingu, eftir umfjöllun í bæjarstjórn.  Annar möguleiki og mun mannlegri, hefði verið að leyfa viðkomandi starfsmanni (sem á sökum aldurs einungis þrjú ár eftir á vinnumarkaði) að klára sinn starfsferil með sóma og fara í framhaldi af því að skoða tilfærslur á verkefnum eða sameiningu starfa.

Sá eini sem hugsanlega er að hagnast á þessari rökleysu er starfsmaðurinn í hinu starfinu sem átti að sameina við, þe. umsjónarmaður Fasteigna Ísafjarðarbæjar.  Því starfi gegnir í dag bæjarfulltrúinn Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokksins og einn af bæjarfulltrúum meirihlutans.  Hann þarf kannski minna að óttast það núna að missa vinnuna eða þurfa að keppa um nýtt starf við vinnufélaga með lengri starfsreynslu og þekkingu.

Útboð á snjómokstri

Fyrir nokkrum dögum var auglýst útboð á snjómokstri á Ísafirði og Hnífsdal.  Þetta gerist þrátt fyrir að það hafi aldrei verið rætt á bæjarstjórnarfundi að til standi að fara í útboð á snjómokstri.  Og þó svo að umræður um útboð og útboðsgögn hafi komið öðru hvoru fyrir bæjarráðsfundi undanfarið ár, hefur á engum tíma verið lögð fram tillaga um að láta auglýsa útboð.  Hvað þá að opin umræða hafi verið tekin um framtíð Þjónustumiðstöðvar bæjarins, Áhaldahúsinu.

Það er ekki verið að tala um einhverja smáaura í þessu sambandi, samkvæmt útboðsgögnum er samningurinn til 3ja ára og gera má því ráð fyrir að verðmæti samningsins verði á bilinu 100-300 milljónir, eftir tíðarfari.  Samkvæmt þessu er jafnframt verið binda hendur bæjarstjórnar, inn á næsta kjörtímabil.

Afstaða okkar fulltrúa Í-listans í bæjarstjórn og bæjarráði gagnvart Áhaldahúsinu og snjómokstri hér í Skutulsfirði hefur alveg verið skýr.  Þjónustunni teljum við best vera fyrir komin áfram með sama hætti, það sé hagkvæmast fyrir bæjarsjóð, tryggir ákveðna grunnþjónustu og tryggir jafnframt ákveðinn stöðuleika í mannahaldi.

Því kom það okkur bæjarfulltrúum minnihlutans verulega á óvart að sjá auglýsingu um útboð á snjómokstri á vefsíðu bæjarins.  Þegar undirritaður óskar svo eftir skýringum á þessu, hvaðan heimildin fyrir útboðinu er komin, bendir formaður bæjarráðs, Daníel Jakobsson, á fundargerð bæjarráðs frá 4 maí sl.  Fundargerðin um þetta atriði er svohljóðandi:

„7.Snjómokstur Ísafirði og Hnífsdal, útboð. – 2019100083

Kynnt drög að útboði frá Axel R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 30. apríl sl., vegna vetrarþjónustu í Skutulsfirði og Hnífsdal.

Lagt fram til kynningar.
Bæjarráð felur Axel R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að gera breytingar í samræmi við umræður, áður en verkið verður boðið út.

Axel R. Överby og Eyþór Guðmundsson yfirgefa fundinn kl. 9:02.“

Eftir umræddan bæjarráðsfund eru haldnir 4 bæjarstjórnarfundir áður en bæjarstjórn fer í sumarfrí. Ef það hefði komið fram tillaga um að auglýsa útboðið á umræddum fundi, þá hefði komið fram mótatkvæði gegn útboði frá fulltrúa Í-listans og þá hefði verið skylt að vísa málinu til næsta bæjarstjórnarfundar.  Bókunin sem slík er á svig við reglur, þegar vísað er í umræður á fundi.  Þá eru sjáanlegar mun meiri breytingar á útboðsgögnum en nokkur bæjarráðsmaður hefur nefnt að hafi verið rætt.  Undirritaður telur því augljóst að um sé að ræða brot á stjórnsýslulögum og útboðið sé því ólöglegt.

Opin stjórnsýsla?

Það er í sjálfum sér eðli stjórnmála að fólk sé ósammála.  Hugmyndafræði opinnar stjórnsýslu byggir hinsvegar á því að fólk skiptist á skoðunum, rökræði um ástæður hinnar ólíku hugmynda og komist svo að niðurstöðu sem er byggð á raunverulegum rökum.  Þessi tvö dæmi sem rakin eru hér fyrir ofan, eru dæmi um eitthvað allt annað en opna stjórnsýslu.  Lýsingar eins og baktjaldamakk, eiginhagsmunapot og reykfyllt bakherbergi eiga trúlega mun betur við.

Fólk sem getur ekki virt stjórnsýslulög og þorir ekki í rökræður um ágreiningsmál á að mínu mati að finna sér eitthvað annað að gera en að vera að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og höndla með skattpeninga almennings.

 

Sigurður Hreinsson

Bæjarfulltrúi Í-listans

DEILA