Sjávarútvegsskóli unga fólksins á Vestfjörðum

Í sumar var Sjávarútvegsskóli unga fólksins kenndur í fyrsta skipti í Vesturbyggð og í Tálknafirði.  Þetta er verkefni sem unnið var í samstarfi vinnuskóla byggðarlaga, fiskeldis- og sjávarútvegsfyrirtækja, Hafnarsamlags Vesturbyggðar,   fyrirtækja tengdum sjávarútvegi og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri.  Fyrirtækin sem voru heimsótt voru Arctic Fish ehf., Arnarlax ehf. og Vélsmiðjan Logi ehf.  Björgunarsveitin Blakkur á Patreksfirði tók einnig á móti krökkunum og fræddi þau um þeirra starfsemi.

 

Skólinn var kenndur í eina viku frá 21. júlí til 24. júlí.    Samtals sóttu 22 nemendur skólann og eru þau á aldrinum 13-16 ára.   Kennslufyrirkomulagið var þannig að nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja,  fengu að meta gæði fisks með skynmati, heimsóttu fyrirtæki í fiskeldi og fyrirtæki tengd sjávarútvegi þar sem þau fengu fræðslu um starfsemi  fyrirtækja í sjávarútvegi,  fyrirtækja í fiskeldi og björgunarsveita.  Einnig voru kynntir fyrir þeim náms- og atvinnumöguleikar í greininni. Síðasta kennsludag var svo nemendum boðið upp á pizzaveislu og nemendur útskrifaðir.

Þrír kennarar fóru frá Akureyri vestur á Patreksfjörð  til að kenna og gekk skólinn vel að mati kennara og annarra sem að skólanum komu.

 

Magnús Víðisson verkefnisstjóri við Sjávarútvegsskólann heimsótti einnig sérstaklega  Arctic Fish ehf og Arnarlax ehf og kynnti sér starfsemi þeirra með það í huga að hanna námsefni fyrir Fiskeldisskóla unga fólksins sem áætlað er að kenna næsta sumar á þeim stöðum þar sem rekið er fiskeldi. Fiskeldisskólinn verður rekinn með sama sniði og Sjávarútvegsskólinn.

 

Skólinn var einnig kenndur í sumar á Norðurlandi eystra, á Austfjörðum, í Reykjavík, og í Skagafirði og sóttu samtals 394 ungmenni skólann  og eru þau á aldrinum 13-16 ára.

Vesturbyggð

https://www.youtube.com/watch?v=G3A9uhwJFDU

DEILA