Laxeldisfyrirtækið Norway Royal Salmon í Noregi, sem er 50% eigandi að Arctic Fish á Vestfjörðum, stefnir að því að taka í notkun í Noregi stóra úthafskví næsta vor.
Fyrirtækið hefur fengið 8 þróunarleyfi fyrir 5.990 tonna ársframleiðslu. Kvíarnar, sem eru í þróun, eru gerðar til þess að þola mikil veður og verða staðsettar í úthafinu utan strandlengjunnar. Með þessum hætti stækkar verulega það hafsvæði þar sem unnt verður að hafa sjókvíar og umhverfisáhrif af úthafskvíunum eru lítil.
Hver kví er um 74 metrar í þvermál , um 40 metra djúp og á það þola 14 metra ölduhæð.
Þetta kemur fram í upplýsingum Norway Royal Salmon til norsku kauphallarinnar sem birtar voru í gær.
Stefnt er að því að setja lax í fyrstu úthafskvína næsta vor.
Salmar, sem er stærsti eigandi að Arnarlax er einnig með áform um úthafskvíar og hafa kynnt kví sem er um 250 þúsund rúmmetrar og 110 metrar í þvermál.