Miklar endurbætur á Suðureyrarkirkju

Suðureyrarkirkja. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Miklar framkvæmdir eru hafnar við Suðureyrarkirkju. Ráðist verður í endurnýjun á þaki og kirkjan máluð. Þá verður tréverk glugganna tekið upp og því skipt því út en það er illa farið. Suðureyrarkirkja var vígð 1937 og tekur 150 manns í sæti.

Frá þessu er greint á vef Þjóðkirkjunnar, kirkjan.is Þar segir:

„Suðureyrarkirkja við Súgandafjörð er prýdd steindum gluggum eftir Benedikt Gunnarsson (1929-2018) en hann var fæddur á Suðureyri og þjóðkunnur listamaður.

Gluggarnir komu í kirkjuna árið 2000 og voru gefnir í tilefni af 1000 ára kristnitökuafmælinu. Gefendur voru velunnarar Suðureyrarkirkju og voru þeir gefnir til minningar um látna ástvini. Fyrst komu tólf gluggar, síðar bættust fleiri við.

Gluggarnir eru helsta gersemi Suðureyrarkirkju.“

Einn af steindu gluggunum.
Mynd: Eyþór Eðvarðsson.

Guðni Einarsson er formaður sóknarnefndar og hann segir að steindu gluggarnir séu í lagi.  Guðni segir að fólk sé að velta því fyrir sér að hafa enga gluggapósta svo að gluggarnir njóti sín enn betur utan frá. Ljós sé haft í kirkjunni að vetrarlagi og þá sjást þeir vel.

Steindu gluggarnir í Suðureyrarkirkju. Mynd: kirkjan.is

Súgfirðingar hafa safnað fyrir endurbótunum og meðal annars voru eignir leikfélagsins Hallvarður Súgandi, tæplega ein milljón króna, gefnar til framkvæmdasjóðs kirkjunnar.

 

DEILA