Mjög góð aðsókn hefur verið í sumar í Litlabæ í Skötufirði að sögn Guðrúnar Kristjánsdóttur. Opnað var í maí og verður opið fram í september.
Litlibær er gamall bær, byggður um 1895 og þar voru tvær fjölskyldur sem bjuggu við aðstæður sem munu þykja frumstæðar í dag og við þröngan kost.
Bærinn hefur verið endurbyggður og er í umsjá Þjóðminjasafns Íslands. Það var Guðmundur Óli Kristinsson, húsasmíðameistari sem hafi veg og vanda af endurbyggingunni.
Litlibær er aðeins 3,9m x 7,4m að grunnfleti (utanmál) en portbyggt loft er yfir jarðhæð. Tvö útieldhús voru skammt frá íbúðarhúsinu, og alls munu liðlega 20 manns hafa búið í Litlabæ á tímabili. Frá árinu 1917 bjó aðeins ein fjölskylda á jörðinni. Búið var í Litlabæ fram til 1969.
Skammt frá Litlabæ, við Hvítanes, hefur verið gerður áningarstaður fyrir ferðamenn, og þar er vinsælt að fylgjast með og mynda sel sem liggur gjarnan á steinum í fjörunni.