Ísafjörður: óásættanlegt ástand á girðingu við Kubba

Í minnisblaði Jóns Skúla Indriðasonar, jarðverkfræðings hjá Eflu, dags. 9. júlí 2020, vegna girðingar á ofanflóðavörnum við Kubba er gerð úttekt á ástandi girðingar sem er á toppi þvergarðs undir Kubba.

Þar segir að girðingin á toppi þvergarðs undir Kubba hafi verið að hreyfast undanfarin ár eða allt frá því að hún var sett upp í lok framkvæmda við garðinn.“Nú er svo komið að halli hennar út úr lóðlínu er orðinn meiri en ásættanlegt getur talist.“ Þá hefur bil á milli girðingarnets og yfirborðs á garði aukist þ.a. hætta getur stafað af.

Framkvæmdum við garðinn lauk 2012 og mælingar hafa staðið yfir á girðingunni frá 2014. Ástandinu er svo lýst:

„Nær allir staurarnir í girðingunni hafa færst út að ofan. Mesta frávik er um 21 cm. Þá hefur bil milli girðingarnets og yfirborðs aukist og er mest allt að 30-40 cm.“

Aðgerðir

Ljóst er að fara þarf í aðgerðir til að koma ástandinu í viðunandi horf  segir í minnisblaðinu. Talið er réttast að fjarlægja núverandi girðingu. Mælt er með því að komið verði upp annarri girðingu ca. 1 m innan við núverandi girðingu. Pláss á garðtoppnum er nægilegt til þess að svo megi verða. Réttast er að bora í garðtoppinn fyrir nýjum hólkum sem staurar verði steyptir fastir í. Bora verður með snúnings-þrýstibor vegna þess grófa efnis sem virðist vera í garðtoppnum. Það er betra en að grafa fyrir hólkunum, þarsem slíkt getur skemmt geogriddið en fara þarf í gegnum tvö lög af því.

 

DEILA