Ísafjörður: málþing um íslenskukennslu í fjölmenningarsamfélagi

Í síðustu viku fór fram málþing í Edinborgarhúsinu á Ísafirði um íslenskukennslu í fjölmenningarsamfélagi. Málþingið byggði á reynslu af kennsluaðferðum á sumarnámskeiðunum sem haldin hafa verið undir merkjum Tungumálatöfra. Fjallað var um mikilvægi nýsköpunar í námsaðferðum og námsgagnagerð og hvernig auka megi þátttöku innflytjenda í tómstundastarfi á sumrin.

Á meðal gesta og framsögumanna voru kennarar, starfsmenn og forráðamenn barna sem sækja Tungumálatöfra, íslenskukennarar á Ásbrú, alþingismenn fjórðungsins, fulltrúar frá félagsmálaráðuneytinu og fjölmenningarsetri, prófessorar og formenn innflytjendaráðs og barnamenningarsjóðs. Ákveðinn þverskurður af þeim sem málið varðar kom þar saman til að eiga samtal um viðfangsefnið. Vegna fjöldatakmarkana var ekki hægt að hafa málþingið eins fjölmennt og upphaflega stóð til en streymt var frá deginum á Facebook-síðu Tungumálatöfra svo áhugasamir gátu fylgst með.

 

Viðburðurinn var haldinn með stuðningi og í samstarfi við prófessorembætti Jóns Sigurðssonar og Edinborgarhúsið á Ísafirði.

 

Að loknum erindum tóku gestir þátt í hópavinna en niðurstöður hennar verða nýttar sem grunnur að frekari þróun á námsefni við námskeiðin sem félagið heldur. Þar var m.a. rætt mikilvægi þess að nýta reynslu og þekkingu innflytjendanna og leitast eftir samstarfi við foreldra barnanna. Bent var á að opna þurfi á samtal við háskólana um að standa betur að námsframboði fyrir þá sem hafa íslenksu sem annað mál. Einnig var rætt um mikilvægi þess að styrkja sjálfsmynd bæði barna og foreldra af erlendum uppruna og hversu dýrmætt er að allir hafi hlutverk í samfélaginu.

DEILA