Ísafjarðarbær: rekstrarniðurstaða 229 m.kr. lakari en áætlun

Uppgjör Ísafjarðarbæjar fyrir annan ársfjórðung 2020 var lagt fram til kynningar á 1117. fundi bæjarráðs þann 17. ágúst síðastliðinn. Uppgjörið sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu upp á 52 m.kr. fyrir janúar til júní 2020 en fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir jákvæðum rekstrarafgangi upp á 281 m.kr.

Samkvæmt minnisblaði Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, eru rekstrartekjur lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 170 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 26 m.kr. Þar kemur einnig fram að fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 32 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaðan er því 229 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrartekjur á fyrri hluta ársins eru um 3,5 milljarðar króna og rekstrargjöld 3,3 milljarðar króna. Stærsti tekjuliðurinn er útsvar upp á 1,1 milljarðar króna. Fasteignaskattar skiluðu 439 milljónum króna og framlag úr Jöfnunarsjóði var 449 milljónir króna á fyrri hluta ársins.

Sterk staða sveitarfélagsins

Birgir Gunnarsson bæjarstjóri, segir á heimsíðu Ísafjarðarbæjar að ekki hafi meðvitað verið gripið til stórra sparnaðaraðgerða á þessu ári vegna þess ástands sem skapast hefur í samfélaginu vegna Covid-19. „Sterk staða sveitarfélagins hefur því komið sér vel til að takast á við þau áföll,“ segir Birgir. „Það gengur hins vegar ekki til lengdar ef tekjusamdráttur sveitarfélagins verður viðvarandi og því þarf að horfa til þess að mögulega þarf að hagræða til að ná jafnvægi í rekstri sveitarfélagins.“

DEILA