Hjúkrunarrýmin eru í Vesturbyggð

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Eins og áður hefur komið fram á bb.is var í kvöldfréttum RUV þann 3. ágúst fjallað um meintan hlut Tálknafjarðarhrepps í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Patreksfirði og að þar sem sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps neiti að greiða sinn hlut, falli hann á Vesturbyggð sem hefur biðlað til ríkisstjórnar að greiða hlut Tálknafjarðar í verkefninu. Upphafsorð fréttarinnar á RUV hljóðuðu svo:

„Tálknafjarðarhreppur vill ekki taka þátt í að fjármagna hjúkrunarrými á Patreksfirði, það þýðir að Vesturbyggð þarf að öllum líkindum að taka á sig hlut beggja sveitarfélaga.“

bb.is leitaði upplýsinga um þetta verkefni hjá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisráðherra. Í fyrsta lagi hvort það sé almennt að nágrannasveitarfélögum sé ætlað að leggja í púkk hjúkrunarheimila í öðrum sveitarfélögum. Hér á Vestfjörðum höfum við Eyri á Ísafirði, Berg í Bolungarvík og Barmahlíð í Reykhólahreppi, var ætlast til að nágrannasveitarfélög leggðu þessum stofnunum til stofnfé. Og sömuleiðis, ef byggð eru hjúkrunarheimili í Garðabæ, er þá ætlast til að Hafnarfjörður taki þátt í stofnframlagi.

Eins var ráðherra spurð að því hvort ákvörðun Tálknafjarðarhrepps hefði áhrif á innlagnir aldraðra Tálknfirðinga á hjúkrunarheimilið á Patreksfirði.

Ekki er öllum spurningum svarað beint í svari frá ráðherra sem hér birtist að neðan en i stuttu máli virðist málið þannig vaxið að almennt, jafnvel aldrei, er ætlast til að nágrannasveitarfélög leggi stofnfé til svona stofnana enda stangast það á við lög. Það er því ekki um að ræða að hlutur Tálknafjarðarhrepps falli á Vesturbyggð, það var aldrei neinn hlutur sem Tálknafjarðarhreppi bar að greiða.

Stutt skoðun á fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps ber sömuleiðis með sér að það væri afar óábyrgt hjá sveitarstjórn hreppsins að samþykkja fjárútlát sem honum ber ekki að sinna.

Svar heilbrigðisráðherra:

Heil og sæl

 Vísað er til fyrirspurnar þinnar varðandi meinta kröfu á Tálknafjarðarhrepp um að taka þátt í endurbótum á hjúkrunarrýmum á Patreksfirði. Ekki var um neina kröfu að ræða heldur var Tálknafjarðarhreppi boðið að koma að verkefninu til að geta haft áhrif á uppbyggingu þjónustu við aldraða á svæðinu. Bæjarstjóra Tálknafjarðarhrepps var boðið að taka þátt í fundum sem haldnir voru vegna undirbúnings verkefnisins svo hann mætti betur taka afstöðu til þessa boðs. Jafnframt var sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps boðinn sérfundur til kynningar á verkefninu, sem hún þáði. Frá upphafi mátti það vera ljóst öllum fundarmönnum á öllum fundum vegna verkefnisins að Tálknafjarðarhreppur væri ekki skyldugur til að taka þátt í kostnaðinum heldur væri um boð að ræða til að geta haft áhrif á uppbyggingu öldrunarþjónustu á svæðinu. Jafnframt kom skýrt fram að tækifæri Tálknfirðinga til þjónustunnar á hjúkrunarheimilinu væru óbreytt eftir sem áður, enda er hún óháð búsetu og fer eingöngu eftir forgangsröðun um þörf einstaklings fyrir þjónustuna.

Lögum samkvæmt skal sveitarfélag leggja til 15% framkvæmdakostnaðar við uppbyggingu hjúkrunarheimilis, auk lóðar en ríkið greiðir 85% framkvæmdakostnaðar. Ekki er getið um nærliggjandi sveitarfélög í lögunum, enda var það ljóst frá upphafi að Tálknafjarðarhreppur var ekki skyldugur til greiðslna, heldur boðið að taka þátt í uppbyggingunni sem auk gagngerðra og aðkallandi endurbóta á hjúkrunarrýmum, mun fela í sér frekari uppbyggingu í öldrunarþjónustu á vegum sveitarfélagsins.

 Kkv.,

 Svandís Svavarsdóttir

 

DEILA