Tálknfirðingar neita að greiða !

Tálknafjörður Mynd : Mats Wibe Lund.

Í fréttum RUV í gærkvöldi var vakin athygli á ákvörðun sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps frá því í byrjun júní að taka ekki þátt í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Patreksfirði og því að hlutur sem Tálknafjarðarhreppi var ætlað að greiða í verkefnið muni falla á Vesturbyggð.

BB hefur sent forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisráðherra fyrirspurn þess efnis hvort algengt sé að nágrannasveitarfélag stofnana sé krafið um þátttöku í verkefni sem þessu. Til dæmis hvort Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur hafi lagt Eyri á Ísafirði til stofnfé á sínum tíma eða Ísafjarðarkaupstaður hafi lagt fé til Bergs í Bolungarvík. Eins hvort Vesturbyggð eða Strandabyggð hafi lagt stofnfé til Barmahlíðar í Reykhólahreppi. Og hvernig fyrirkomulagið sé á höfuðborgarsvæðinu þegar byggð eru eða endurnýjuð hjúkrunarheimili í einu sveitarfélagi.

Sömu aðilar hafa fengið fyrirspurn um hvort neitun sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps muni hafa áhrif á mögulegar innlagnir aldraðra Tálknfirðinga á hjúkrunarheimilið á Patreksfirði.

  1. gr. Laga um heilbrigðisþjónustu (40/2007) hljóðar svo:
  • Kostnaður við byggingu og búnað sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skal vera 15% af stofnkostnaði. Meiri háttar viðhald og tækjakaup teljast til stofnkostnaðar. Almennur viðhaldskostnaður fasteigna og tækja telst ekki til stofnkostnaðar.
  • Sveitarfélög láta í té lóðir undir byggingar skv. 1. mgr., þ.m.t. íbúðarhúsnæði sem ætlað er starfsmönnum, ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda og lóðarleigu.
  • Eignarhlutur hvors aðila um sig skal vera í samræmi við kostnaðarhlutdeild skv. 1. mgr. Hvorugur aðili á kröfu á hinn um leigu vegna eignar eða eignarhluta.
  • Ráðherra getur í reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, kveðið nánar á um það hvað telst til meiri háttar viðhalds skv. 1. mgr.

Ekki fylgdi með í frétt RUV hvaða forsendur lágu til grundvallar á skiptingu kostnaðar milli Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

bryndis@bb.is

DEILA