Hafsjór af hugmyndum -Úthlutun styrkja

Miðvikudaginn 19. ágúst 2020 var haldið úthlutunarhóf í Nýsköpunarkeppninni Hafsjó af hugmyndum sem fram fór í fjarfundi. Markmið keppninnar er að ýta undir nýsköpun hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum og hvetja háskólanema til rannsókna tengdum sjávarútvegi og samfélögunum á Vestfjörðum.

Haustið 2019 var blásið til sóknar og ákveðið að halda Nýsköpunarkeppni og styrkja háskólaverkefni á vegum Sjávarútvegsklasa Vestfjarða en klasinn fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði árið 2016 til að efla nýsköpunarvinnu.

Það bárust 21 umsókn í báða sjóðina, 11 umsóknir um háskólastyrki og 10 umsóknir um nýsköpunarstyrki.  Umsóknirnar voru fjölbreyttar og endurspegla vel hversu víða sjávarútvegurinn kemur við í okkar samfélögum.

Fyrirtækin sem standa að Sjávarútvegsklasa Vestfjarða bjóða auk styrkjanna upp á aðgang að þekkingu, hráefni og aðstöðu við vinnslu verkefnanna og eru miklar væntingar um kraumandi nýsköpunarvinnu í vetur sem verður fróðlegt að fylgjast með.

Í dómnefnd voru Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Dr. Jakob Kristjánsson, Ketill Berg Magnússon og Catherine P. Chambers.

Þau verkefni sem hlutu háskólastyrki voru:

  1. Handbók til að tengja erlenda og innlenda foreldra á Vestfjörðum – Helga Björt Möller HA
  2. Klasafræði og samkeppnishæfni – Arna Lára Jónsdóttir HÍ
  3. Microplastic in mackerel and blue whiting – Anni Malinen, Háskólasetri Vestfjarða
  4. Kambucha Japanese beverage – Maryn Ivan John Jones, Háskólasetri Vestfjarða
  5. Wastewater treatment – microalgae – Ivan Nikonov, Háskólasetri Vestfjarða

Þau verkefni sem hlutu Nýsköpunarstyrk voru:

  1. Markaðssetning á eldisfiski – Aðalsteinn Egill Traustason, Iceland Westfjords Seafood
  2. Eldislax í neytendapakkningar – Stefán Hannibal Hafberg, Íslandssögu
  3. Tekjustýringarkerfi fyrir fjölþætt sjávarútvegsfyrirtæki – Halldór Pálmi Bjarkason
  4. Fullvinnsla sjávarfangs á Þingeyri – Birkir Kristjánsson og Reynir Friðriksson
  5. Framleiðsla á olíu úr ljósátu úr Ísafjarðardjúpi – Kristján G. Jóhannsson

Guðrún Anna Finnbogadóttir, Verkefnastjóri Vestfjarðastofu sagði við Bæjarins besta  að Vestfjarðastofa og Sjávarútvegsklasi Vestfjarða þakki öllum sem sendu inn umsóknir og öllum þeim sem komu að undirbúningi, hönnun og ráðgjöf keppninnar fyrir þeirra framlag ásamt því að óska styrkhöfum til hamingju.

DEILA