Góð afkoma hjá Norway Royal Salmon

Góð afkoma var hjá laxeldisfyrirtækinu Norway Royal Salmon á öðrum ársfjórðungi þessa árs en upplýsingar um það voru birtar í norsku kauphöllinni í morgun.

Norway Royal Salmon er 50% eigandi að Arctic Fish á Vestfjörðum. Fyrirtæki í eigu Pólverjans Malek á 47,5% og innlendir einstaklingar eiga 2,5%.

Hagnaður fyrir skatta á 2. ársfjórðungi 2020 varð 9% af tekjum eða um 120 milljónir norskra króna sem gerir um 1,9 milljarð íslenskra króna.

Framleiðsla fyrirtækisins að  meðtöldu Arctic Fish á Íslandi  jókst um 59% frá sama tíma í fyrra og selt magn jókst um 18%.  Áætluð framleiðsla ársins er um 44 þúsund tonn. Tekjur samsteypunnar voru um 20 milljarðar króna á 2. ársfjórðungi 2020.  Eignir eru metnar á um 75 milljarða króna og 60% þeirra eru eigið fé. Verð á markaði var 57,72 NOK að meðaltali á tímabilinu sem jafngildir um 895 kr/kg. Þrátt fyrir covid19 og áhrif þess lækkaði verði aðeins um 7%.

Lífmassi í sjó jókst um 4.558 tonn eða um 24% frá öðrum ársfjórðungi 2019.

Fram koma upplýsingar um Arctic Fish í uppgjörinu og hefur orðið mikil breyting á afkomu fyrirtækisins þar sem það er farið að skila tekjum af sölu en hingað til hefur það einkum verið í uppbyggingarfasa.

Hagnaður  á 2. ársfjórðungi varð 2,7 milljónir NOK sem jafngildir um 42 milljónir íslenskra króna  en á sama tíma í fyrra varð rúmlega 20 milljóna króna tap.

Á þessu ári er áætlað að slátrað verði 8.200 tonnum af laxi sem er aukning um 150%.

Arctic Fish hefur framleiðsluleyfi fyrir um 12.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjó og umsóknir um 20.000 tonn eru til afgreiðslu.

DEILA