Flateyri: risasveppur fannst við bókabúðina

Eyþór Jóvinsson, verslunarstjóri Gömlu bókabúðarinnar á Flateyri greinir frá því á vefsíðu bókabúðarinnar að fundist hafi í garði hennar stærðarinnar sveppur. Við athugun kom í ljós að um var að ræða svokallaða Jötungímu, sem er stærsta sveppategund heims og er afar fátíð á Íslandi. „Hún er svo fátíð að aðeins er vitað um 15 aðrar skráðar staðsetningar á Íslandi þar sem hún hefur fundist og er því Gamli Bókabúðargarðuinn sá sextándi sem vitað er um á öllu Íslandi“ skrifar Eyþór.

Sveppurinn var að sjálfsögðu tekinn inn og bæði mældur og veginn og reyndist vera 1,55 kg. og ummál hans heilir 72 cm.

sveppurinn matreiddur

Þá var bara næst á dagskrá að smakka á þessum stærðarsveppi sem fær góða bragðdóma í Sveppahandbók Bjarna, eða tvær stjörnur af þremur mögulegum. Fyrsta tilraun var að steikja sveppinn eins og steik á pönnu, upp úr olíu og smjöri ásamt smá salti og pipar. Öllu umstangi haldið í lágmarki til að hámarka bragð sveppsins. Sveppurinn smakkaðist líka svona ljómandi vel segir Eyþór að lokum og hyggur gott til frekari matseldar í vetur á sveppnum.

DEILA