Ferocius Glitter II í Úthverfu

Í dag opnar sýningin „Ferocious Glitter II“ sem er seinni hlutinn í röð tíu tveggja vikna sýninga í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði. Fyrri hluti seríunnar fór fram sumarið 2019 og þá voru sýnd verk Peter Schmidt, Svövu Skúladóttur, Ingólfs Arnarssonar, Karin Sander og Rögnu Róbertsdóttur. Sýningarnar tengjast allar Ísafirði og menningar- og listasögu bæjarins. Sýningarstjóri er Gavin Morrison.

Þessi síðasta sýning í Ferocious Glitter röðinni – og sú fimmta á þessu ári – fjallar um verk hins þekkta ameríska minimalista Donald Judd (1928-1994). Judd fæddist í miðvesturríkjum Bandaríkjanna en tengist fyrst og fremst listheimi New York borgar og síðar eyðimörk vesturhluta Texas, þar sem hann byggði upp safn í bænum Marfa til að sýna eigin verk og nokkurra valinna samtímamanna.

Judd átti í löngu sambandi við Ísland og 1992 sýndi hann sína fyrstu einkasýningu hér á landi, á Ísafirði. Þessi sýning Judd er rifjuð upp á Ferocious Glitter með upptökum af frásögnum fólks sem hitti Judd á meðan hann var á Ísafirði.

DONALD JUDD (BNA)
Donald Judd er einn merkasti myndlistarmaður samtímans. Verk hans ollu róttækum breytingum í málverki og skúlptúr og hann varð leiðandi í samræðunni um samspil lista og arkitektúrs.
Hann fæddist 1928 í Missouri og lést árið 1994 í Texas. Upp úr áttunda áratugnum hófst hann handa við að byggja upp Chinati Foundation, safnið í Marfa í Texas sem gerði honum kleift að finna bestu leiðirnar til að sýna eigin verk og fjölda annarra listamanna sem hann dáðist að. Hann tók þátt í fjölda mikilvægra sýninga í söfnum víðsvegar um heiminn þar á meðal: The Whitney Museum of American Art í New York; Museum Boymans-van Beuningen í Rotterdam; Stedelijk Museum í Amsterdam; Kitakyushu Municipal Museum of Art, Kitakyushu í Japan; Tate Modern í London, og 2020 opnaði stór yfirlitssýning á verkum hans í Museum of Modern Art í New York.

Fræðast má betur um sýninguna á facebooksíðu Gallerísins.

bryndis@bb.is

DEILA