Covid19 : skuldir sveitarfélaganna aukast um 650 milljónir króna

Lækkun útsvarstekna.

Fram kemur í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar að ætla má að skuldir sveitarfélaganna á Vestfjörðum muni aukast á árinu um 650 milljónir króna sé miðað við fjárhagsáætlun þeirra fyrir 2020.

Veltufé sveitarfélaganna mun lækka verulega eða um 600 milljónir króna á sama tíma.  Munurinn á 600 m.kr. lækkun veltufjár og 650 m.kr. skuldaaukningu skýrist að mestu af því af því að Bolungavík kaupstaður hefur þegar ákveðið að auka framkvæmdir um 34 m.kr. til mótvægis við áhrif veirufaraldursins. Önnur vestfirsk sveitarfélög hafa ekki ákveðið slíkt enn sem komið er, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni.

Veltufé Ísafjarðarbæjar lækkar um 304 milljónir króna. Hjá Bolungavíkurkaupstað er lækkunin 135 m.kr. og 91 m.kr hjá Vesturbyggð. Þá er veltufjárlækkunin mjög mikil hjá Reykhólahreppi sé tekið mið af íbúafjölda, en þar er lækkunin 37 m.kr. Í Strandabyggð er lækkunin 25 m.kr. og 20 m.kr. hjá Tálknafirði. Annað er upp á teningnum í Súðavík er þar hækkar veltuféð um 11 m.kr. Kann það að skýrast af því að hreppurinn hefur ákveðið að selja íbúðir sem hann á á Ísafirði.

Útsvarstekjur lækka

Samkvæmt skýrslunni er það einkum lækkun útsvarstekna sem veldur versnandi stöðu sveitarfélaganna, en einnig lækkun þjónustutekna. Að meðaltali lækka tekjur af útsvari um 30.612 kr/íbúa en lækkunin er talin verða meiri hjá fjórum vestfirskum sveitarfélögum.

Verst kemur Bolungavík út. Þar er lækkunin 74.187 kr/íbúa sem er meira en tvöfalt meira en landsmeðaltalið  og það er fimmta mesta lækkunin á landinu. Í Reykhólahreppi lækka útsvarstekjur um 58.101 kr/íbúa, 48.256 kr/íbúa í Tálknafirði og í Ísafjarðarbæ er lækkunin 36.237 kr/íbúa.

Þjónustutekjur lækka líka

Þegar litið er á þjónustutekjur verður mest lækkun í Strandabyggð. Þar er lækkunin 11 m.kr. eða 24.945 kr/íbúa sem er næst mesta lækkun þjónustutekna á landinu á eftir Reykjavíkurborg. Í Bolungavík og Vesturbyggð er lækkunin um 15.000 kr/íbúa og er það 6. og 7. mesta lækkun þjónustutekna á landinu.

 

DEILA