Byggðakvóti: 540 m.kr. ríkisstyrkur

Fiskistofa hefur birt skiptingu á byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2019/20 milli byggðarlaga á Vestfjörðum og milli skipa og báta innan hvers byggðarlags. Formleg úthlutun byggðakvótans á hvern bát er komin á veg en misjafnlega langt eftir byggðarlögum.

Samtals er 2.478 tonnum mælt í þorskígildum skipt á milli byggðarlaganna.

Mest er úthlutað til Flateyrar en þangað fara 478 tonn. Til Tálknafjarðar fara 429 tonn og 365 tonn til Þingeyrar. Súðavík fær fjórða hæsta kvótann eða 239 tonn.  Hnífsdalur fær 207 tonn, Suðureyri 200 tonn og Ísafjörður 190 tonn.

Í Strandasýslu fara 148 tonn til Strandabyggðar, 76 tonn til Drangsness og 15 tonn til Árneshrepps. Bolungavíkurkaupstaður og Reykhólahreppur eru einu sveitarfélögin á Vestfjörðum sem  ekki eru talið þurfa á stuðningi ríkisvaldsins í þessu formi þetta árið.

Miðað við verð á leigukvóta í sumar, sem er 235,85 kr/kg þorski,  er verðgildi byggðakvótans umreiknað í þorskígildi um 540 milljónir króna. Byggðakvótanum er úthlutað endurgjaldslaust, en greiða þarf veiðigjald af lönduðum byggðakvóta eins og öðrum veiddum afla.

Veiðigjaldið 2020 er 10,62 kr/kg af þorski og lækkaði um 23% frá 2019.

Sæli BA frá Tálknafirði er sá bátur sem fær mestan byggðakvóta, en samkvæt skiptingunni sem Fiskistofa birtir fær hann 316 tonna byggðakvóta. Verðgildi kvótans er um 75 milljónir króna.

Egill ÍS á þingeyri fær næsthæsta byggðakvótann eða 252 tonn í þorskígildum reiknað. Verðmæti kvótans er um 60 milljónir króna. Í þriðja sæti er togarinn Páll Pálsson ÍS með 207 tonna byggðakvóta að verðgildi um 49 m.kr. Stefnir ÍS er fjórði kvótahæsti og fær 150 tonn. Verðmæti kvótans er um 35 milljónir króna. Fimmti hæsti báturinn er Blossi ÍS frá Flateyri sem samkvæmt skiptingunni fær 107 tonn og 70 tonn. Verðgildi kvótans er um 42 milljónir króna.

Ekki hefur verið gengið frá úthlutun kvótans á neitt ofangreindra skipa.

DEILA