Bergþór Pálsson setur Tónlistarskólann í fyrsta sinn

Bergþór Pálsson, skólastjóri. Mynd: Albert Eiríksson.

Tónlistarskóli Ísafjarðar var settur í gærkvöldi. Bergþór Pálsson, söngvari er nýr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri er Sigrún Pálmadóttir, óperusöngkona.

Þá er Rachell Elliott frá Ástralíu nýr kennari við skólann og lék hún syrpu af áströlskum þjóðlögum á flautu við setningarathöfnina. Pétur Geir Svavarsson  mun koma einu sinni í hverjum mánuði til þess að þjálfa söngnemendur.

Ingunn ósk Sturludóttir og Dagný Arnalds hafa látið af störfum og haslað sér völl fyrir sunnan eftir langa og farsæla þjónustu við skólann.

Í setningarræðu sinni vék Bergþór að því hugsjónastarfi  „sem hér hefur verið unnið allt frá því að Jónas Tómasson sýndi þá framsýni að stofna skólann, ber vott um mikla bjartsýni og eldmóð. Jónas fékk í lið með sér hóp sem lagðist á árarnar með honum til að koma skólanum á fót af óbilandi kjarki og staðfestu. Sú saga ætti að vera okkur hvatning til góðra verka. Ísfirðingum hefur blessunarlega alltaf þótt vænt um tónlistarskólann sinn.“

Ísafjörður er fyrirmynd

Og Bergþór hélt áfram og sagði:

„Við eigum áfram að hafa það að markmiði að landsmenn líti til Ísafjarðar sem fyrirmyndar í þessum efnum. En það veltur á okkur öllum að viðhalda þeim myndarskap og orðstír, sem skólinn skapaði sér. Það gerum við saman, nemendur, kennarar og annað starfsfólk, forráðamenn, allt samfélagið.

Að rækta með sér eldmóð er mikilvægt fyrir okkur hvert og eitt, persónulega, en í litlu samfélagi er ekki síst brýnt að við trúum því að við séum sigurvegarar. Hér er allt hægt, ef við trúum á það.

Hér er magnaður kraftur í fjöllunum og landinu og e.t.v. er það ástæða þess að hér býr dugmikið fólk. Það er reisn yfir Ísfirðingum, þeir hafa húmor, þeir framkvæma. Það er mín mynd af Ísfirðingum.“

Hvað er tónlist?

Í lok ávarps síns vék Bergþór að því að hann hefði undanfarin 40 ár fengist við tónlist og velti fyrir sér hvað tónlist væri. Því svaraði hann svona:

„Ég minnist þess í skóla þegar ég var að læra að greina tónverk, hvað mér fannst sumt af þessari tónlist óaðgengilegt … En … maður þarf að taka sér tak og hlusta aftur og aftur, bera saman mismunandi flytjendur og mismunandi hljómsveitarstjóra.

Og þá fara undrin að gerast, maður skilur að það er hægt að spila þessa setningu svona … með myndugleika, eða svona… eins og það sé verið að hvísla að manni ljóði. Veröldin fer að ljóma og ilma, himnarnir opnast og við skynjum eitthvað inni í brjóstinu sem er æðra öllu hversdagslegu. Þá öðlast maður tilfinningalegt ríkidæmi.

Um þetta snýst málið. Þess vegna er svo brýnt að hlúa að Tónlistarskóla Ísafjarðar, til þess að byggja upp fólk með tilfinningalegt ríkidæmi.“

 

 

DEILA