Árneshreppur: styrkur til vegabóta nýtist vel

Árneshreppur hefur fengið lítilsháttar styrk frá Vegagerðinni undanfarin ár til þess að lagfæra vegi í hreppnum. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sagði frá því fyrr í vikunni að afleggjarar heim að Naustvík og Kúvíkum hefðu verið lagfærðir en hún leggur áherslu á að styrkurinn hafi nýst til fleiri úrbóta.

„Við höfum jú verið að nota styrkina til þess að gera fleira en að laga bara tvo afleggjara.  Við þurfum líka að borga sjálf heflun á heimkeyrslum á þá bæi sem ekki eru lengur í heilsársbúsetu.  Árið 2018 notuðum við allan styrkinn til þess að láta mala fyrir okkur ofaníburð, í fyrra létum við bera ofan í Munaðarnesafleggjarann, laga Naustvíkurafleggjarann og hann var kláraður í vor.  Svo létum við hefla norður í Fell núna í sumar, það verður mulinn grófur ofaníburður á kafla á leiðinni í Munaðarnes, og það verður keyrt ofaní Kúvíkurafleggjarann seinni partinn í ágúst.  Þannig að þetta eru ýmis verkefni sem við erum að taka fyrir.“

DEILA