Árneshreppur: brýnt að haldið verði áfram með Hvalárvirkjun

Sveitarstjórn Árneshrepps ályktaði um Hvalárvirkjun á fundi sínum miðvikudaginn 12. ágúst. Tilefnið var skýrsla frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Vestfjarðastofu varðandi framtíðarhorfur á Vestfjörðum.

Í ályktuninni segir að brýnt sé að haldið verði til streitu að koma virkjunni upp þar sem skortur á raforku hafi hamlað atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.

„Hreppsnefnd Árneshrepps telur mjög brýnt að haldið verði til streitu áformum um virkjun Hvalár og vill að lögð verði þung áhersla á það mál af hálfu Fjórðungssambandsins og Vestfjarðastofu.  Atvinnuuppbygging á Vestfjörðum hefur liðið mikið fyrir skort á raforku og því með öllu óásættanlegt að málum sé sífellt frestað og sett í biðstöðu.  Nú á tímum orkuskipta er enn brýnna að flýtt verði framkvæmdum og hreppsnefnd hvetur Landsnet til að flýta sem mest vinnu og áætlunum um ný tengivirki í Ísafjarðardjúpi, í Kollafirði og hönnun línustæða eftir því sem við á“.

DEILA