Arctic Fish: 62 m.kr. hagnaður á fyrri hluta ársins

Frá kynningarfundi Arctic Fish á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 var góður afkoma og hagnaður varð 795 þúsund evrur eða um 130 m.kr.  Á öðrum fjórðungi varð afkoman neikvæð um 410 þúsund evrur. Samanlögð afkoma félagsins fyrir fyrri hluta ársins varð hagnaður upp á  384 þúsund evrur eða um 62 milljónir króna. Félagið seldi um 860 tonn af slægðum laxi á fyrsta ársfjórðungi og 805 tonn í öðrum ársfjórðungu, samtals 1.665 tonn.  Auk þess seldi félagið smáseiði til annara eldisfyrirtækja. Gert er  ráð fyrir að framleiðsla ársins verði liðlega 8.000 tonn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Góður árangur í eldinu

Í tilkynningunni  segir:

„Framleiðslukostnaður er stöðugur og hefur náðst góður árangur í sjálfu eldinu.  Fiskurinn vex vel og er heilbrigður.

Áfram er unnið markvisst að því að lækka framleiðslukostnað enda er hann hærri hér en í öðrum löndum þar sem  laxfiskaeldi er stundað.  Einnig má benda á að flutningskostnaður á okkar helstu markað eri líka hærri en hjá samkeppnislöndum.  Það er mikilvægt fyrir fyrirtækið að geta straumlínulagað kostnað til þess að geta tekist á við ófyrirséðar sveiflur.“

Afurðaverð á erlendum mörkuðum hefur hins vegar lækkað eftir að covid 19 kom upp en Fishpool, sem heldur utan um laxaverðsvísitölu, spáir því að verð hækki á komandi mánuðum. Til lengri tíma litið gerir fyrirtækið ráð fyrir því að verð á mörkuðum nái jafnvægi.

Fjármögnun tryggð

Arctic Fish er í góðu ferli með viðskiptabönkum sínum varðandi framtíðarfjármögnun fyrirtækisins, segir í fréttatilkynningunni. Eigendur félagsins hafa nýlokið við frekari fjármögnun til félagsins sem styrkir skammtímastöðu félagsins.

„Þá er ljóst að það mun þurfa að fjárfesta mikið á komandi mánuðum og árum til þess að auka sjálfbærni og arðbærni félagsins. Þessar miklu fjárfestingar munu kalla á áframhaldandi fjárhagslegan stuðning frá eigendum sem og góðum langtímasamningum við viðskiptabanka félagsins.“

Áframhaldandi uppbygging

Áætlað að halda óbreyttum áformum um áframhaldandi uppbyggingu á starfsemi félagsins til lengri tíma.

 

 

DEILA