Vesturbyggð: leggst gegn þverun Vatnsfjarðar

Bæjarráð Vesturbyggðar segir í áliti sínu á um skýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg að það taki undir sjónarmið Skipulagsstofnunar um að þverun Vatnsfjarðar feli í sér takmarkað vægi þegar horft er til samgönguúrbóta á Vestfjarðavegi.

„Bæjarráð Vesturbyggðar leggst því gegn þverun Vatnsfjarðar og leggur til að farið verði í endurbyggingu á núverandi vegstæði í Vatnsfirði, þ.e. veglínu A1, A2 eða A3.“

Vegagerðin hefur lagt fram tillögur um nokkrar veglínur fyrir og yfir Vatnsfjörð við Flókalund við gerð á nýjum vegi þaðan og yfir Dynjandisheiði til Mjólkár. Í áfanga I sem er frá Hörgsnesi að  Tröllaháls eru lagðar til veglínur A1, A2, A3, F, F2 og F3 sem velja skal milli. A línurnar gera allar  ráð fyrir vegi fyrir Vatnsfjörðinn en en F veglínurnar eru þveranir.

Um þennan kafla framkvæmdarinnar segir í matsskýrslunni:

„Gert er ráð fyrir að áfangi I, Hörgsnes – Tröllaháls í Vatnsfirði, yrði síðastur í framkvæmd, því á þeim kafla er Vestfjarðavegur að hluta til heilsársvegur með bundnu slitlagi. Á þeim hluta Vestfjarðavegar verður núverandi vegur um Flókalund nýttur nánast óbreyttur þar til ráðist yrði í framkvæmdir á leið sem sátt yrði um og uppfyllti markmið um bættar samgöngur.“

Þá segir Vegagerðin um valkostina sex:

„Á áfanga I í Vatnsfirði verður meira umferðaröryggi á veglínum F og F3 sem þvera Vatnsfjörð en á öðrum veglínum. Vegna þverunarinnar hafa þær ásamt veglínu F2 meiri neikvæð áhrif á landslag en kostir sem liggja fyrir Vatnsfjörð, en um leið hafa þær jákvæð áhrif á umhverfið fyrir botni Vatnsfjarðar þegar dregur úr umferð þar og auka möguleika á útivist innan friðlandsins. Veglína A1 sem fylgir núverandi vegi á lengstum kafla hefur minnst neikvæð áhrif á umhverfið. Vegagerðin telur að umferðaröryggi á veglínu A3 á áfanga I við Flókalund sé of lítið og hún komi því ekki til greina sem valkostur.“

DEILA