Vesturbyggð: 15% íbúafjölgun frá 2011

Íbúum í sveitarfélaginu Vesturbyggð hefur fjölgað um 15% frá 2011. Þá voru aðeins 890 íbúar í sveitarfélaginu en eru nú 1.021 samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar.

Í nýsamþykktri húsnæðisáætlun Vesturbyggðar er rakin mannfjöldaþróun frá 1998.  Þar segir að verulega hafi dregið úr mannfjölda í sveitarfélaginu frá 1998 til 2011. „Árið 1998 var fjöldinn um 1.250 en árið 2011 var hann 890. Fækkunin á þessum tíma var því rúmlega 360 manns. Á undanförnum árum hefur aftur orðið þónokkur fjölgun íbúa og við upphaf árs 2019 var fjöldinn orðinn um 1.000.“

Vesturbyggð varð til 1994 með sameiningu fjögurra sveitarfélaga, Rauðasandshrepps, Barðastrandarhrepps, Patrekshrepps og Bíldudalshrepps. Á svæðinu bjuggu 1.463 íbúar á síðasta ári fyrir sameiningu og reyndar 1.540 íbúar árið 1990.

Breytingarnar síðustu 30 ár hafa verið miklar. Frá 1990 til 2011 fækkaði íbúum úr 1.540 í 890. Það er 44% fækkun. Síðan hefur íbúum fjölgað aftur upp í 1.021 sem er um 15% fjölgun.

Hækkandi fasteignaverð

Fram kemur í húsnæðisáætluninni að verð á íbúðarhúsnæði hafi farið hækkandi síðustu ár samhliða fjölgun íbúa. Sérbýli hefur hækkað úr 11-14 milljónir króna að jafnaði á árunum 2010-2016 upp í 19-20 milljónir króna 2019-2020 samkvæmt kaupsamningum. Verð í fjölbýli hefur hækkað úr 5-7 milljónir króna í 9-12 milljónir króna á sömu tímabilum.

Meðalfermetraverð er í báðum tilvikum um 120 þúsund krónur.

Björt framtíð: 240 íbúafjölgun og 120 íbúðir

Í áætluninni er húsnæðisþörfin metin miðað við tvær ólíkar sviðsmyndir. Í annarri sem heitir björt framtíð er gert ráð fyrir uppbyggingu í atvinnulífinu.

Miðað er við að leyfi gefin út fyrir auknu eldi og aukinni kalkvinnslu og því fylgi:
Aukning í störfum hjá stærstu fyrirtækjunum um 70-90 störf
Nýtt fyrirtæki hefur rekstur með um 50 ný störf
Íbúafjölgun um 240 manns.

Gangi sú framtíðarsýn eftir verður íbúafjöldinn árið 2030 orðinn  svipaður og hann var 1994.

Við þessar aðstæður er talið að það muni þurfa 120 nýjar íbúðir í sveitarfélagið.

Seinni viðsmyndin kallast skref aftur á bak og miðast við að leyfi verði afturkölluð fyrir eldi og vinnsla kalks hætti:
Fækkun starfa um 150
Íbúafækkun um 250 manns.

Ef þessi þróun verður er talið að losna muni um 140 íbúðir í sveitarfélaginu.

Verkfræðistofan Efla vann húsnæðisáætlunina fyrir Vesturbyggð.

 

 

 

DEILA