Vestri gerði jafntefli við toppliðið 3:3

Nacho Gil skorar úr vítaspyrnu. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson

Vestri og ÍBV gerðu jafntefli í miklum markaleik sem var að ljúka á Torfnesvellinum á Ísafirði.  Vestmanneyingar, sem voru á toppnum fyrir þessa leikumferð,  byrjuðu betur og gerðu tvö mörk í fyrri hálfleik og virtust vera að stinga Vestfirðingana af. En Vestri fékk aukaspyrnu á hættulegum stað fyrir utan vítateik Eyjamanna og upp úr henni varði Eyjamaður með hendinni. Nacho Gil skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og skömmu fyrir leikhlé jafnaði Vestri þegar Nacho Gil skallaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu.

Í síðari hálfleik hélt fjörið áfram og Nacho Gil fullkomnaði þrennuna á 60. mín. með marki úr annarri vítaspyrnu sem dæmd var á Eyjamenn. Eyjamenn jöfnuði skömmu síðar. Á lokamínútu leiksins fékk Nacho Gil frábært færi til þess að skora 4. markið en honum brást bogalistin að þessu sinni.

ÍBV er með 15 stig eftir leikinn og Vestri er með 11 stig.

Nacho Gil skallar knöttinn sem er á leiðinni í markið og jafnar leikinn 2:2.
Vel var mætt á leikinn og meðal annars þessir heiðursmenn.
DEILA