Vestfirðir: 13 byggðakjarnar

Frá Drangsnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á Vestfjörðum eru 13 byggðakjarnar sem eru frá 70 íbúum sá fámennasti og að 2.685 íbúum sá fjölmennasti. Þá búa 692 í strjálbýli á Vestfjörðum. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Vestfirðir 1.1. 2020 íbúafjöldi
Reykhólar 128
Patreksfjörður 696
Tálknafjörður 236
Bíldudalur 219
Þingeyri 264
Flateyri 208
Suðureyri 276
Bolungavík 930
Hnífsdalur 212
Ísafjörður 2.685
Súðavík 170
Drangsnes 70
Hólmavík 329
Strjálbýli á Vestfjörðum 692
7.115

 

Drangsnes er fámennasti byggðakjarninn með 70 íbúa þann 1. janúar 2020. Tveir aðrir byggðakjarnar á Vestfjörðum eru með færri en 200 íbúa. það eru Reykhólar með 128 íbúa og Súðavík, þar sem íbúarnir eru 170 manns.

Fjölmennastur kjarninn er Ísafjörður með 2.685 íbúa og næst kemur Bolungavík með 930 manns í þéttbýlinu. Patreksfjörður er þriðji fjölmennastur, en þar bjuggu 696 manns um áramótin. Þessi þrír byggðakjarnar eru þeir einu sem ná 500 íbúum.

Þéttbýlisstaðir með 200 eða fleiri íbúa voru 63 hinn 1. janúar 2020 á landinu. Langstærsti þéttbýlisstaðurinn var Stór-Reykjavík með 228.418 íbúa en þar er samfelld byggð frá Hafnarfirði norður í Mosfellsbæ. Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík, þar sem bjuggu 19.311 íbúar, en á Akureyri og nágrenni bjuggu 18.893 íbúar hinn 1. janúar 2020.

DEILA