Vegna endurnýjunar hjúkrunarrýma á Patreksfirði

Núna í júní tók sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ákvörðun að vera ekki aðili að uppbyggingu vegna endurnýjunar ellefu hjúkurnarrýma á Patreksfirði. Þetta varð niðurstaðan eftir að hafa farið vel yfir málið og þar á meðal á kynningarfundi með fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisráðuneytisins.

 

Það voru nokkrar ástæður sem lágu að baki þessari ákvörðun hjá sveitarstjórninni. Fyrir það fyrsta þá er hún í samræmi við áherslu á uppbyggingu þjónustuíbúða á Tálknafirði sem var á stefnuskrá meirihlutans við síðustu kosningar. Nú þegar liggur fyrir vilyrði fyrir stofnfjárframlagi frá ríkinu til þess verkefnis og þarf sveitarfélagið að leggja fjármagn þar á móti. ­Það er einfaldlega ekki svigrúm í rekstri lítils sveitarfélags að taka þátt í báðum verkefnunum. Í öðru lagi er ljóst að sveitarfélagið þarf að leggja meira fjármagn í framkvæmdir á þessu ári en lagt var upp með í fjárhagsáætlun m.a. vegna tjóns á heitavatnslögnum í íþróttahúsi. Síðan skiptir máli að uppbygging hjúkrunarýma er á ábyrgð ríkisins en ekki eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Þá er jafnframt ljóst að endurnýjun hjúkrunarrýmanna á Patreskfirði stendur ekki eða fellur með aðkomu Tálknfirðinga enda frumkvæði að verkefninu komið sameiginlega frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Vesturbyggð.

 

Það má þó ekki taka því þannig að þessi ákvörðun sveitarstjórnar þýði að Tálknfirðingar geri sér ekki grein fyrir mikilvægi þess hjúkrunarrýmin á Patreksfirði verði endurnýjuð þannig að þau standist þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar heilbriðisstarfsemi á 21. öldinni. Sú uppbygging er sannarlega mikilvæg en er bara ekki á ábyrgð Tálknafjarðarhrepps.

 

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

DEILA