Þjóðgarður á svæði Dynjanda og nágrennis – er það góð hugmynd?

Grundvöllur faglegra ákvarðana er að allar upplýsingar í viðkomandi máli liggi fyrir, þannig er hægt að vega og meta alla kosti og galla og möguleg tækifæri og hættur samhliða endanlegri ákvörðun. Þetta á vel við í því máli sem hér er til umræðu þ.e. hugmyndinni um að svæði Dynjanda og nágrennis verði skilgreint sem þjóðgarður. Málið var lagt fyrir bæjarstjórn á dögunum sem samþykkti að fá frekari kynningu og upplýsingar um málið áður en tekin yrði afstaða til tillögunnar.

Fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneyti ásamt bæjarstjóra Snæfellsbæjar kynntu á dögunum fyrir bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar hvað í því fellst að skilgreina landssvæði sem þjóðgarð. Kynningin var mjög upplýsandi og gagnleg og mikilvægt fyrsta skref í því að nálgast málið út frá faglegum forsendum með hagsmuni samfélagins að leiðarljósi. Það kom t.d. skýrt fram að þrátt fyrir að landssvæði sé skilgreint sem þjóðgarður hamli það ekki nauðsynlegri innviðauppbygginu s.s. í formi lagningu vega eða raflína um viðkomandi svæði. Þvert á móti þá er það veigamikill hluti af skipulagi þjóðgarða að tryggja öruggt og gott aðgengi að og innan þjóðagarðs.

 

Skapar Þjóðgarður störf?

Það er ljóst að ýmis tækifæri felast í því að skilgreina svæðið sem Þjóðgarð og er það reynsla annarsstaðar að þjóðgarður sé mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Uppbygging innviða er óhjákvæmileg í formi stíga, vega, bílastæða, aðstöðuhúsa og uppbyggingar í tengslum við markverða staði innan svæðisins. Þjóðgarður þýðir líka að ráða þarf í störf þjóðgarðsvarða auk landvarða. Leiða má líkum að því að þetta hefði einnig jákvæð áhrif á ýmsa aðra ferðatengda þjónustu s.s. veitingastaði, gististaði, söfn og aðra afþreyingu á svæðinu.

 

Ákveða þarf hvort að við viljum Þjóðgarð

Engin ákvörðun hefur verið tekin í málinu og verður það ekki gert fyrr en málið hefur verið kynnt fyrir íbúum. Þær kynningar geta verið með ýmsum hætti s.s. með greinarskrifum, miðlun upplýsinga á samfélagsmiðlum og með íbúafundum. Þegar og ef ákvörðun verður tekin um að skilgreina framangreint svæði sem þjóðgarð þá fer það í formlegt ferli með auglýsingu um mörk svæðisins og friðlýsingarflokk. Gera má ráð fyrir að kynningarferlið taki 2-3 mánuði og að lokum er það í höndum ráðherra að taka ákvörðun um friðlýsingu.

Það er mikilvægt að við skoðum þetta mál rækilega frá öllum hliðum og með jákvæðum hætti. Þjóðgarður á svæðinu umhverfis Dynjanda gæti verið mikill styrkur fyrir áframhaldandi uppbyggingu á Vestfjörðum og mikið adráttarafl fyrir ferðamenn. Náttúrufegurð á Vestfjörðum er engu lík en mikilvægt að við göngum um hana af virðingu og margt sem bendir til þess að þjóðgarður stuðli að betri stýringu umferðar um svæðið. Auk þess sem sett yrði fjármagn í að byggja upp aðstöðu við náttúruperlur og þannig tryggt að svæðið yrði ekki fyrir átroðningi. Þannig gæti þjóðgarður á svæði Dynjanda verið góð hugmynd.

 

Daníel Jakobsson

DEILA